148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

almenn hegningarlög.

10. mál
[20:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna enn og aftur þessu frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum er varðar kynferðisbrot sem þingmenn Viðreisnar lögðu fram hér á þinginu öðru sinni. Þetta er, svo að því sé haldið til haga, ekki efnisleg breyting á umræddu ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga. Ekki er um að ræða efnisbreytingu þar sem kynferðismök án samþykkis brotaþola eru nú þegar refsiverð og hafa verið allt frá því að almennum hegningarlögum var breytt árið 2007, heldur er meira um það að ræða að verið er að brýna vilja löggjafans varðandi þetta tiltekna lagaákvæði. Það að samþykki þurfi að vera algjörlega skýrt og að það sé fyrir hendi hefur nefnilega verið í lögunum, en einhverra hluta vegna hefur brotaþoli hingað til í raun þurft að bera ábyrgð á því að sanna að samþykkið hafi ekki verið til staðar. Þannig hefur þetta horft við þeim sem hafa starfað í þessum málaflokki, sem er svolítið sérstakt.

Ég kom aðeins inn á þetta við 1. umr. þessa ágæta máls vegna þess að í öðrum málum, þar sem um er að ræða brot á almennum hegningarlögum, er ekki horft eins á málin. Við getum tekið sem dæmi húsbrot, innbrot. Þegar um er að ræða innbrot getur húseigandi gengið út frá því að enginn fari inn í hans hús nema hafa til þess sérstakt leyfi húsráðanda, annaðhvort að viðkomandi hafi hreinlega verið boðið í heimsókn eða að viðkomandi hafi lyklavöld á staðnum. Hafi viðkomandi hvorki fengið heimboð né verið með lyklavöld telst algerlega ótvírætt að um húsbrot sé að ræða.

Þegar um er að ræða kynferðisbrot höfum við hins vegar ákveðið að láta húsráðandann, ef ég má taka svo til orða, sanna að hann hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir innrásinni. Þannig hefur þetta snúið í málum þegar upp koma kynferðisbrot, bæði hjá lögreglu, hjá rannsakanda, hjá ákæruvaldinu og síðar í dómi, að brotaþoli hefur einhvern veginn þurft að sýna fram á að hann hafi gert geranda fyllilega grein fyrir því að innrás inn í hans eða hennar persónulega líf væri ekki með samþykki brotaþola. Þarna er eiginlega búið að snúa þessu öllu við að mínu mati.

Í þessum málum hefur hingað til, þrátt fyrir skýrt lagaákvæði, verið gengið út frá því að samþykki sé viðvarandi ástand, að eiginlegt ástand viðkomandi sé að viðkomandi sé alltaf til í tuskið hvar sem er, hvort sem viðkomandi þekkir aðilann eða ekki, að hvað sem á undan er gengið séu kynferðismök það sem allir geti gengið út frá nema viðkomandi láti annað í ljós. Það er auðvitað ekki svo í núgildandi ákvæði í hegningarlögunum 194. gr., að þetta sé orðað þannig, en í meðförum bæði lögreglu og saksóknara og dómstóla hefur þetta einhvern veginn verið þannig að brotaþoli þarf hreinlega að sanna að hann hafi neitað, hafi ekki verið samþykkur.

Hvernig fer viðkomandi að því? Margar rannsóknir hafa verið gerðar og m.a. má sjá umfjöllun um rannsókn sem gerð var af Agnesi Gísladóttur, um tíðni og einkenni kynferðisofbeldis gegn konum sem leituðu á neyðarmóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss á árunum 1998–2007, í sérstakri umsögn sem Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis sendi þegar umrædd breyting á hegningarlögunum var lögð til fyrra sinni, þ.e. á síðasta þingi. Fjallað er um þessa rannsókn í þeirri umsögn sem þaðan barst. Þar kemur fram að tæplega 13% brotaþola frjósa í þeim aðstæðum sem eiga sér stað, 30% reyna einhvern veginn að tala viðkomandi geranda til eða berjast á móti með orðum og tæplega 30% berjast líkamlega við innrásinni. Nú er það líka svo að í 47% tilvika segjast brotaþolar hafa verið þolendur áfengistengds kynferðislegs ofbeldis.

Þannig má sjá að mikill fjöldi þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi frýs ýmist algerlega og getur ekki með nokkru móti greint frá að þetta sé ekki með samþykki eða getur ekki sökum rænuleysis greint frá. Þá sjáum við vel hvernig ástandið er, þ.e. að snúa því á haus að viðkomandi þurfi að sanna að gerandi hafi ekki verið þarna í þökk brotaþola.

Það er líka vert að benda á það, og það kemur svo sem fram í þessu nefndaráliti, að ekki er verið að snúa sönnunarbyrðinni við í þessum málum. Alls ekki. Þvert á móti. Það er einfaldlega verið að árétta að gerandi þurfi einhvern veginn að færa sönnur fyrir því að umrædd kynmök, eða hvað sem á sér stað, hafi verið með samþykki beggja. Ég held að þetta verði mikil réttarbót þó að, eins og áður kom fram, ekki sé um byltingu að ræða. Það er ekki bylting. Það er ekki verið að breyta neinu efnislega. Það er verið að breyta ákveðnu viðhorfi, að viðkomandi þurfi skýrt samþykki fyrir því að eiga í samneyti við aðra manneskju.

Ég vil því ítreka að ég fagna mjög þessu frumvarpi og vona svo innilega að það fái framgöngu hér á þinginu.