148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

almenn hegningarlög.

10. mál
[20:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir fagna því að þetta mál sé komið þetta langt og býst fastlega við að það verði samþykkt á þessu þingi í ljósi þess hversu langt það er komið.

Mig langar að fjalla aðeins um ákveðinn misskilning eða ótta sem ég hef orðið var við í samfélaginu. Ég hef nefnt þetta áður hér í ræðu en finnst mikilvægt að halda því til haga og ætla ekki að fara ítarlegar út í það sem hv. þingmenn hafa nefnt hér á undan.

Í 27. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Birta skal lög. Um birtingarháttu og framkvæmd laga fer að landslögum.“

Það er ástæða fyrir því að þetta ákvæði er í stjórnarskrá. Það er vegna þess að borgarinn hefur rétt á að vita hvernig lögin í landinu eru. Af tveimur ástæðum. Annars vegar þarf borgarinn að vita til hvaða hegðunar er ætlast til af honum og í öðru lagi þarf borgarinn að hafa raunhæft færi á að lesa lögin og átta sig á rétti sínum gagnvart öðrum.

Það er þó nokkuð mikið, að mínu mati, í almennum hegningarlögum sem hinn almenni borgari mun ekki skilja í samræmi við dómaframkvæmd. Hér hefur oft verið nefnt og er alveg rétt að það sem hér liggur fyrir er ekki efnisleg breyting, en skiptir þó óheyrilega miklu máli vegna þess að lestur laganna eins og þau eru býður alla vega upp á einhvern misskilning. Það sést best á ótta fólks við að hér sé verið að snúa við sönnunarbyrðinni, að héðan í frá þurfi fólk skyndilega að þurfa að sanna að það sé saklaust af einhverjum glæp. Fólk verður ægilega óttaslegið þegar það fær þessa hugmynd, eðlilega, sönnunarbyrðinni má auðvitað ekki snúa við. En þessi misskilningur skapast kannski vegna þess að í samfélagi okkar, óháð því hvernig dómaframkvæmd er, hefur skilningurinn ekki verið nægilega mikill á þessari leið, sem er auðvitað dómaframkvæmd og er ætlan frumvarpsins sem við ræðum hér.

Mér finnst afskaplega mikilvægt að halda þessu til haga, líka vegna þess að það kemur upp í fleiri málum sem eru til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd, t.d. máli sem varðar stafrænt kynferðisofbeldi, áður kallað hrelliklám eða hefndarklám þótt það sé ekki ákjósanlegt orðalag, að oft er bent til dómaframkvæmda og heyrast þær raddir að í raun sé athæfið nú þegar bannað. Það er gott og blessað en það þarf að vera skýrt. Það er ekki nóg að það sé í dómaframkvæmd. Borgarinn þarf að geta lesið lögin og áttað sig sjálfur á hvaða rétt hann hefur gagnvart öðrum og síðan vitaskuld hvernig hann eigi að haga sér sjálfur, hafi hann ekki þessi grundvallarsiðferðismörk sem við teljum flest vera sjálfsögð en eru það því miður ekki.

Burt séð frá vitundarvakningunni sem ég vona að þetta frumvarp hafi í för með sér og tel mig reyndar vita að það geri finnst mér mikilvægt að við skýrum öll svona lög, svona ákvæði í almennum hegningarlögum. Því að annars er alltaf hætt við því að ef það verður ekki misskilningur um hvað lögin þýði verði vissulega misskilningur um hvað frumvarp eins og þetta þýðir.

En ég ítreka að áhyggjur mínar af þessu stafa af því að ég hef heyrt þessar áhyggjur svo oft, að það sé verið að snúa við sönnunarbyrðinni. Það þarf alltaf að ítreka að það sé ekki verið að snúa henni við. Misskilningurinn sprettur af því að 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og lögin eru skrifuð í dag, er að mínu mati ekki skrifuð með það í huga að taka jafn afdráttarlaust undir það sem þessu frumvarpi er ætlað að leiða í lög, að vitaskuld þýði kynfrelsi okkar allra það að við höfum réttinn til að segja já og réttinn til að segja nei en það er alveg sama hvert svarið er, það er okkar sjálfra og einskis annars.