148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sýnir að hlutverkin hafa snúist á hvolf. Ég hef alltaf litið á mig sem hægri krata en ég er allt í einu farinn að tala meira sem Vinstri grænn en þingmenn Vinstri grænna. Það sýnir að mínu mati að þingmenn Vinstri grænna hafa villst af leið. Ég vitna í ykkar eigin orð þar sem þið voruð mjög skýr og hvöss í gagnrýni ykkar á fyrri stefnu, sem er keimlík þeirri stefnu sem þið bjóðið núna upp á.

Varðandi útgjaldaþakið: Jú, útgjaldaþakið var tekið úr stefnunni. En hvað gera Vinstri grænir í fjárlaganefnd? Þeir kalla eftir útgjaldareglunni aftur. Það er í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Þið eruð að kalla eftir útgjaldaþakinu aftur í nefndarálitinu sem Bjarkey skrifar upp á. Þetta er sérkennileg pólitík sem ég skil ekki. Þið börðust gegn útgjaldaþakinu, náðuð því augljóslega út við gerð stefnunnar og eruð núna að kalla eftir því aftur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Á hvaða vegferð er þessi flokkur eiginlega, frú forseti?

(Forseti (BHar): Forseti minnir á reglur um hvernig eigi að ávarpa þingmenn og ráðherra.)