148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég verð að fá tækifæri til að gera athugasemdir við þessa ræðu og held mig við umfjöllun hv. fjárlaganefndar þar að lútandi. Og af því að ég hef sagt það áður þá voru það afar gagnlegar umsagnir. Hv. þingmaður vísaði í nokkrar umsagnir, þar á meðal umsögn Samtaka iðnaðarins, sem ég vitnaði til í ræðu minni og fannst afar góð.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, og vísaði þar í umsögn Samtaka iðnaðarins, að ekkert land innan OECD hefði gengið í gegnum viðlíka sveiflu og Ísland í raungengi krónunnar á mælikvarða launa á verðlag. Það er alveg hárrétt sem fram kemur og það er góð umsögn að hér búum við við sterkt raungengi. En við erum að tala um 15 ár aftur í tímann. Það er varla við þessa stefnu að sakast, sem er fimm ár fram í tímann með jákvæða afkomu og áform um að lækka skuldir.