148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þó svo að Seðlabanki tali gjarnan varlega í þessum efnum hefur hann sagt mjög skýrt, bæði í umsögnum sínum um síðasta fjárlagafrumvarp og sömuleiðis í umsögnum sínum og fyrir fjárlaganefnd um þessa fjármálastefnu, að þessi kúrs í ríkisfjármálunum leiði einfaldlega til hærra vaxtastigs og sterkara gengis krónunnar en ella. Ríkisfjármálin eru ekki að leggja hagstjórninni lið. Þau eru þvert á móti enn og aftur að kynda undir hagvexti á sama tíma og við erum að glíma við mjög erfiða stöðu í efnahagsstjórninni. Það þýðir að vextir verða hærri, gengið verður sterkara. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi hér fyrr í kvöld að Seðlabanki hefði ekki hækkað vexti við síðustu vaxtaákvörðun. Það er rétt, en Seðlabankinn var líka búinn að vera í vaxtalækkunarferli frá þeim tíma og bendir á að það væri tekið að kólna í hagkerfinu, en hefur stöðvað það vaxtalækkunarferli, væntanlega út af óábyrgri ríkisfjármálastefnu.