148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Á dögunum kynnti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024. Tillagan er nú í samráðsgátt stjórnvalda, en þangað geta allir sent inn umsagnir til kl. fjögur í dag.

Byggðaáætluninni er ætlað að stuðla að jákvæðri þróun byggða og efla samkeppnishæfni þeirra sem og landsins alls. Byggðamál eru öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, svo sem búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagssviðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna, fjarskipta og umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt þeirri skilgreiningu eru byggðamál viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti. Því er mikilvægt að samhæfa byggðasjónarmið sem mest við alla málaflokka, hvort heldur er hjá ríki eða sveitarfélögum.

Sú byggðaáætlun sem lögð hefur verið fram til kynningar hefur þrjú markmið: Að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Við Framsóknarmenn fögnum því að þessi tillaga hafi verið lögð fram. Hún er í anda þess sem við höfum talað fyrir undanfarin misseri og lögðum m.a. mikla áherslu á í kosningabaráttu.

Í áætluninni eru lagðar til aðgerðir eins og að veita einstaklingum sem sækja þurfa vinnu fjarri heimabyggð skattafslátt vegna ferða tengdum vinnu. Einnig er lagt til nýta námslánakerfið sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum. Þannig er hægt að stuðla að aukinni sérfræðiþekkingu vítt og breitt um landið, fjölga framhaldsmenntuðu fólki í dreifðum byggðum og auka fjölbreytni. Auk þess eru margar aðrar aðgerðir lagðar fram. Þær eru tímasettar og er ábyrgðaraðili settur fyrir hvern þátt.

Hæstv. forseti. Byggðaáætluninni ber að fagna og ég hvet alla hæstv. ráðherra og þingheim allan til að koma þessu mikilvæga máli í gegnum þingið. Það skiptir landsmenn miklu máli.