148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að fjalla um hlutverk talsmanna barna. Ég er stolt af því að gegna því hlutverki fyrir hönd þingflokks míns.

Ég ætla að ræða um skógrækt því að í dag, 21. mars, er alþjóðlegur dagur skóga og í ár er yfirskrift dagsins „Skógar og sjálfbærar borgir“, samkvæmt ákvörðun matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ætlunin er að vekja athygli á því að markviss notkun trjágróðurs í þéttbýli getur dregið úr mengun, þar með talið svifryki, dregið úr hávaða, jafnað hitasveiflur, stuðlað að vatnsvernd og vatnsmiðlun, eflt gæði útivistar og aukið umferðaröryggi og lífsgæði í borgum á margan hátt.

Í síðustu viku heimsótti umhverfis- og samgöngunefnd rannsóknarstöð skógræktarinnar á Mógilsá og hitti ýmsa fulltrúa þeirra sem draga vagninn í skógrækt á Íslandi; fulltrúa skógræktarinnar, skógræktarfélaganna og skógarbænda. Sameiginlegt markmið skógræktargeirans núna er fjórföldun nýræktunar skóga, en það er aðeins tvöföldun miðað við árlega nýrækt fyrir hrun. Að því verkefni þurfa margir að koma því að aukin skógrækt hefur fjölbreytta kosti. Hún getur skilað verulegri kolefnisbindingu, varið jarðvegsauðlindina, byggt upp skógarauðlind til viðarframleiðslu og annarra nytja.

Í því samhengi vil ég þess vegna benda á að ríkið hefur þegar gert samninga við skógarbændur um fjórfalt meiri skógrækt en nú fer fram hjá þeim. Þar er allt tilbúið, land, áætlanir, starfskraftar og skipulag. Hægt væri að planta fjórum sinnum meira í 10 ár ef ríkið stæði við sinn hluta samningsins.

Að lokum vil ég taka undir áskorun hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar sem hann kom með fram í störfum þingsins í gær, um að stofna sjóð sem hefði það hlutverk að vera farvegur fyrir fjármagn til skógræktar, hvort sem er frá opinberum aðilum, fyrirtækjum eða almenningi.