148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera hér að umtalsefni nýliðna vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands sem er vikugömul í dag. Seðlabankinn ákvað í stuttu máli að meginvextir bankans skyldu vera óbreyttir í 4,25% og stýrivextir í 5% sem er um það bil tvöföld verðbólga síðustu mánaða. Þessi ákvörðun er tekin af hálfu Seðlabankans þrátt fyrir að nú sé hagkerfið aðeins byrjað að kólna, þrátt fyrir að fyrir dyrum standi erfiðar kjaraviðræður þar sem m.a. mun örugglega bera á góma vaxtastigið í landinu.

Það vill svo til að Seðlabanki Íslands hélt málstofu nú um daginn þar sem nokkrir starfsmenn hans komu saman og klöppuðu sjálfum sér á bakið fyrir góðan árangur í baráttu við verðbólgu. Þar kom fram sú furðulega yfirlýsing af hálfu yfirhagfræðings Seðlabankans, með leyfi hæstv. forseta, að „skortur trúverðugleika meðal almennings og fyrirtækja á 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans skýri að miklu leyti litla verðbólgu á síðustu árum“.

Ég hefði nú viljað sjá þessa setningu á íslensku, en það vill þannig til að það er kannski einn aðili sem hefur öðrum fremur litla trú á verðbólgumarkmiði Seðlabankans og það er Seðlabankinn. Það er kannski ekki undarlegt. Hann hefur ofmetið verðbólgu núna í þrjú ár við hverja vaxtaákvörðun á fætur annarri og það er náttúrlega ekki nema von að menn verði skeptískir á þessi sjónarmið Seðlabankans sem koma fram mánuð eftir mánuð þar sem ýmislegt gerist í hinum ytra heimi sem er okkur hagfellt og verðbólgan heldur áfram að vera lág en það má ekki hreyfa við vöxtunum. Í einu landi í OECD-ríkjunum má ekki hreyfa við vöxtunum, á Íslandi. (Forseti hringir.) Þeir verða að vera fjórfaldir, fimmfaldir á við það sem gerist í næstu nágrannalöndum. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera eitthvað vitlaust gefið hér.