148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að lesa upp úr bréfi sem ég fékk, með leyfi forseta:

„Frá árinu 2011 hefur verið starfandi vinnuhópur um endurskoðun búsetuskerðingar. Hefur hann leitast við að vekja athygli á stöðu þeirra sem fá ekki fullan örorku-, endurhæfingar- eða ellilífeyri vegna búsetu erlendis; með orðinu búsetuskerðing er átt við skerta greiðslu til einstaklinga vegna hlutfalls búsetu þeirra utan Íslands. Til að skýra þetta nánar eiga aðeins þeir sem búið hafa á Íslandi í 40 ár, frá aldrinum 16–70 ára, rétt á örorkuendurhæfingar- eða ellilífeyri. Hafi einstaklingur verið búsettur erlendis um langa sem skamma hríð, áður en hann kemst á ellilaunaaldur eða þarfnast örorku eða endurhæfingarlífeyris vegna heilsubrests eða slyss, er hlutfall búsetunnar reiknað út og lífeyririnn ákvarðaður í samræmi við þetta.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Jú, að einstaklingur lifir kannski á 70 þús. kr., hann fær ekkert meira. Hann fær ekki félagsbætur eða neitt því að ef hann á maka á makinn að halda honum uppi. Þetta eru einir fátækustu einstaklingarnir á Íslandi í dag. Þetta er lítill hópur, 2.000 manns. Það hlýtur að vera einfalt að sjá að bara það að borga þessum einstaklingum út persónuafslátt myndi tvöfalda tekjur þeirra. Þess vegna verðum við að finna sanngjarnar lágmarksgreiðslur, ekki lágmark heldur eðlilegar greiðslur sem fólk getur lifað af með reisn, og sjá til þess að enginn fái minna en það. Til þess ber okkur skylda. Þetta fólk lifir í sárri fátækt og er okkur algerlega til skammar að láta nokkurn á Íslandi þurfa að vera í þessari aðstöðu.