148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[12:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það kemur stundum fyrir í umræðum að skoðanaskipti eiga sér stað sem þoka umræðunni eitthvað áfram. Mig langar að taka undir meginþorrann af því sem hv. þm. Pawel Bartoszek sagði áðan. Ég tel það vera sjónarmið sem við höfum kannski tilhneigingu til þess að gleyma hérna á Alþingi, a.m.k. vissulega sá sem hér stendur, þ.e. hvernig hlutirnir líta út á Alþingi annars vegar og hvernig þeir líta út fyrir borgaranum hins vegar. Ég hef hreinlega ekki mikla reynslu af því að flytja hluti inn til landsins þannig að ég hef ekki mikil samskipti við tollinn almennt í mínu daglega lífi og þekki þess vegna ekki vandræðin sem hv. þingmaður nefnir. En mig langar samt að taka það fram í seinni ræðu að þó að við gætum verið þeirrar skoðunar að tollar ættu ekki að vera jafn háir og þeir eru eða ekki jafn margir og þeir eru, eða jafnvel ekki yfir höfuð, er ég samt sem áður þeirrar skoðunar að það sem við ákveðum að gera það eigum við að gera og fjármagna þannig að það virki að fullu.

Meðan ég man þykir mér það sama um lögregluna. Ég er á móti sumum valdheimildum sem lögreglan hefur í reynd. Ég er á móti því hvernig hún hagar sér stundum. Ég er t.d. á móti því að við erum með allt of lítið eftirlit með lögreglu. En hins vegar vil ég hafa nógu marga lögreglumenn. Ég vil að þeir fái almennilega borgað. Ég vil að þeir fái almennilega menntun.

Ég vil að það sem við ákveðum að gera sé almennilega fjármagnað þannig að það skili sínu ætlaða hlutverki. Svo hef ég hins vegar kannski skoðun á því að hlutverkið sjálft ætti að vera eitthvert annað. Ég hef t.d. djúpa andstyggð á tollum í grundvallaratriðum, en mér finnst mikilvægt að þeir tollar sem við ákveðum að innheimta séu innheimtir. Ef þeir eru ekki innheimtir vegna þess að embættið er vanfjármagnað finnst mér að við eigum að fjármagna það betur. Jafnvel er ég á sama tíma þeirrar skoðunar að haga ætti tollheimtu öðruvísi eða að hún ætti einfaldlega að vera minni.

Sömuleiðis vil ég taka það fram að eftirlitið er frekar víðtækt. Hér var minnst á skort á fíkniefnahundum. Þar komum við inn á þann hluta löggæslu sem mér þykir persónulega í ógeðfelldari kantinum, en eins og ég segi snýst það ekki endilega um fjármögnun, heldur hvernig við viljum hafa hlutina. Þetta eru tvær ólíkar spurningar þótt þær séu vissulega skyldar.

En ég þakka hv. þingmanni Pawel Bartoszek fyrir innlegg hans í umræðuna. Það er áhugavert og vel þess virði að hlusta á það.