148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:04]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum að sjálfsögðu hlynnt þessu máli og höfum verið það. Ég vil beina því til ungra kjósenda að þetta er pólitískt að því leytinu til að þeir flokkar sem eru með eldri kjósendur eru þeir sem hafa ýmist dregið lappirnar í málinu eða reynt að leggja stein í götu þess. Við getum farið yfir það allt og upplýst og horft yfir málið í heild sinni. Þetta er pólitískt að því leytinu til að menn geta alla vega ekki séð að þeir geti komið í veg fyrir að þetta gerist. Þetta mun gerast og þetta varðar réttindi 16 til 18 ára barna, þannig að menn geta ekki sett sig upp á móti því. Þeir geta reynt að fresta þessu máli um einar kosningar, komandi sveitarstjórnarkosningar. Það er það sem er í gangi núna.

Fylgist með umræðunni. Fylgist með hverjir draga lappirnar, hverjir reyna að segja að ekki sé hægt að gera þetta núna þó að rök séu fyrir hinu gagnstæða frá ýmsum alþjóðastofnunum varðandi réttindi barna og lýðræði um að gera megi undantekningar þegar ekki eru gerðar grundvallarbreytingar. Þetta eru ekki grundvallarbreytingar. Þetta fjallar bara um að 16 til 18 ára börn megi kjósa í þessum (Forseti hringir.) kosningum. Það breytir ekki ferlinu. Fylgist með þessu máli. (Forseti hringir.) Talið við eldri kjósendur ef þið fáið ekki þennan rétt, talið þá við eldri (Forseti hringir.) kjósendur um þá svívirðu.