148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég treysti ungu fólki til að kjósa. Ég treysti 16–18 ára unglingum fyllilega til að mynda sér sjálfstæða skoðun á málefnum út frá sínum hagsmunum eins og allir aðrir kjósendur. Það er enginn vandi að færa þeim þetta vald í hendur. Það er dálítið fyndið að hlusta á suma sem taka hér til máls sem beita fyrir sig einhvers konar röksemdarfærslum Marteins Mosdals, að það þurfi að vera ein ríkisleið, einn ríkisaldur, á öllum borgaralegum réttindum. Það er auðvitað besta leiðin til að drepa þetta mál algerlega. Við vitum til dæmis að ef við blöndum saman kosningaaldri og áfengiskaupaaldri hækkum við kosningaaldurinn, það er alveg ljóst. Þannig að ég treysti unga fólkinu, ég sé ekki nokkra meinbugi á því, þetta er ekki grundvallarbreyting á kosningakerfinu okkar. Það er verið að stækka kjörskrána um sirka 3%. Það er allt og sumt. Í rafrænu þjóðfélagi held ég að við hljótum að ráða við það með sex vikna fyrirvara. Ég styð málið eins og það kemur fyrir.