148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég sá þetta líka. Það er ánægjulegt að hagur sveitarfélaga er að vænkast. En það er mynd sem er mjög brothætt. Hv. þingmaður talaði um A-hlutann og B-hlutann. Ég geri ráð fyrir að bætt afkoma sé vegna meiri vinnu, hærri útsvarstekna og síðan styrkari stöðu B-hluta fyrirtækja. A-hluta fyrirtækin eru bara í klípu og klemmu. Sveitarfélögin hafa verið að taka hvert verkefnið á fætur öðru frá ríki án þess að fylgt hafi nægilegt fjármagn. Öldrunarþjónustan er rekin með tapi hjá þeim sveitarfélögum sem reka hana, sjúkraflutningar eru víða í slæmri stöðu. Og svo ef menn bera saman laun, annars vegar hjá sveitarfélagi og hins vegar hjá ríki, kemur í ljós að fólk sem vinnur hjá sveitarfélögunum er á lægri launum en ríkisstarfsmenn því að sveitarfélögin hafa einfaldlega ekki efni á að borga sambærileg laun. Það er bæði óeðlilegt og auðvitað óæskilegt.

Ég held reyndar að eitt brýnasta verkefni Alþingis í dag sé að endurskoða algerlega frá grunni tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa nánast enga möguleika til að afla sér tekna ef eitthvað óvænt kemur upp á, ef það á að hækka laun eða það verður einhver vertíðarbrestur. Þannig að sú mynd er brothætt. Ég held að það sé raunverulega ástæðan fyrir því að sambandið bendir á þetta því þetta er mjög fljótt að breytast. Sveitarfélögin hafa litla möguleika til að bregðast við ef hlutirnir fara á verri veginn.