148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:43]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þarna hitti hv. þingmaður einmitt naglann á höfuðið. Það er í rauninni erfitt að taka þétt á því hvort það sé farið eftir grunngildum eða hvort þeim sé mætt að öllu leyti í fjármálastefnunni fyrr en fjármálaáætlunin er komin fram. Það kann að vera að þingmaðurinn hafi meint eitthvað annað, en ég skildi hann þannig. (Gripið fram í.) Ég held eins og kemur fram í áliti fjármálaráðs, eins og það orðar það, að æskilegt væri að stefnan tæki meira mið af grunngildunum, en eðlilega treystir það sér ekki til þess að fara lengra vegna þess að ef við ætluðum að negla það betur niður og fara dýpra ofan í það að fara eftir nákvæmlega eftir grunngildunum þá yrðu hreinlega að vera einhverjir kvarðar á þeim. Öðruvísi væri það ekki hægt og öðruvísi væri aldrei hægt að segja: Já, við fórum eftir þeim af því að þetta passar akkúrat inn í það skapalón.

En ég trúi því að það hafi verið með vilja við lagasetninguna að ekki var farið dýpra í þetta en svo. Það kann hins vegar að vera rétt hjá hv. þingmanni að það ætti að vera nákvæmara. Ég er alveg til í að eiga á einhverjum tímapunkti orðaskipti við þingmanninn um hvort það ætti að vera. Engu að síður þá held ég að það sem kemur fram í þessari fjármálastefnu sé stefnubreyting og ég leyfi mér að fullyrða það hér að ég trúi því ekki að ábyrgir stjórnmálamenn hefðu viljað að það væru gerðar kollsteypur á milli þessarar fjármálastefnu miðað við þá sem var á undan. Því trúi ég ekki, en breytingin er engu að síður umtalsverð.