148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:12]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Frú forseti. Spurningin um hvar hv. þingmaður vill skera niður er á fyrstu blaðsíðu í kennslubók í stjórnmálapælingum. Ég myndi kannski vilja biðja hv. þingmann um að fara aðeins aftar í bókina því að ég er nú aðeins eldri í þessari umræðu en svo. Hugmyndin með lögum um opinber fjármál er einmitt að byrja á því að marka heildarafkomu og útgjaldaramma ríkissjóðs til þess að við þurfum ekki á því stigi málsins að taka umræðu um það hvaða skólum ég sem hv. þingmaður vil loka og hvaða skóla ég vil opna. Það er eitthvað sem myndi birtast í ríkisfjármálaáætlun. Það er eitthvað sem myndi birtast í fjárlögum.

Það myndi ramma alla umræðuna töluvert betur ef við þyrftum ekki að taka umræðu um 500 milljarða til eða frá í tiltekið verkefni í fjárlögum heldur gætum við verið búin að mynda okkar ramma áður. Það er það sem ég legg til að verði gert. Þess vegna mun ég ekki svara spurningum um hvar ég myndi skera niður. Það mun koma fram þegar ég legg fram mína eigin fjármálaáætlun og mín eigin fjárlög. Það er nú grín, hv. þingmaður.