148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Ég hef haft áhuga á þeim atriðum sem snúa að samskiptum barna og foreldra í þessu samhengi öllu og samræmi hlutanna sem hv. þm. Brynjar Níelsson hefur verið óþreytandi við að tengja inn í þetta mál allt saman. En það er eitt sem ég velti fyrir mér sem fram kemur í áliti umboðsmanns barna sem sent var inn til nefndarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frá 16 til 18 ára [aldurs] eru einstaklingar börn og því í forsjá foreldra eða annarra forsjáraðila. Mikilvægt er að löggjafinn meti hvort að forsjáraðili geti með einhverjum hætti haft áhrif á kosningarrétt barna við núverandi aðstæður, til dæmis um aðgengi að upplýsingum fyrir kosningar. Má í þessu sambandi nefna sendingu markpósta, aðgang stjórnmálaflokka að skólum eða nemendafélögum, til dæmis grunnskólum, en lækkun kosningaaldurs mun hafa í för með sér að hluti 10. bekkinga“ — ég ítreka: hluti 10. bekkinga — „öðlast kosningarrétt. Mikilvægt er að tryggt sé að foreldrar geti ekki með einhverjum hætti haft áhrif á kosningarrétt barna verði kosningarréttur lækkaður.“

Það er ekki alveg einfalt um að leysa þetta því að þarna stangast væntanlega á forræðisréttur foreldris við þennan nýtilkomna kosningarrétt barnsins sem telur sig og er samkvæmt áliti umboðsmanns barna í fullum rétti til að leita sér upplýsinga með hverjum þeim hætti sem barninu hugnast. Það væri áhugavert að heyra hvort hv. þm. Brynjar Níelsson hefur skoðað þann vinkil málsins, af því að ég veit að hann er vel inni í þessum málum.