148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisumræða sem hefur farið fram hér í ræðustól. Ég hafði að sumu leyti vonast til að umræðan hefði verið meiri og dýpri og farið fram enn þá meira í nefndinni. Eftir því sem mér skilst var svolítill hraði á málinu í gegnum nefndina þannig að það var kannski ekki farið nógu djúpt í ýmis atriði eins og t.d. þau atriði sem hv. þm. Brynjar Níelsson nefndi varðandi það hvort viðkomandi geti kært kosninguna eða kært eitthvað varðandi framkvæmd kosninganna. Og við hv. þingmaður ræddum það hérna.

Ég ætla í ræðunni að fara síðar aðeins yfir þær umsagnir sem hafa komið, sem eru margar hverjar mjög jákvæðar og aðrar jákvæðari en vara við ákveðnum hlutum. Það er jákvæð umsögn sem hvetur til þess að ákveðnir hlutir séu skoðaðir sérstaklega o.s.frv.

Mín persónulega afstaða til þessa máls er sú að ég held að það sé vont að samþykkja frumvarpið eins og það er í dag og gera ráð fyrir að það taki strax gildi og virki í næstu kosningum. Ég held að tíminn sé bara einfaldlega of stuttur út af svo mörgu. Ég held að miklu betra væri að vanda betur til verka, undirbúa landið miklu betur, ef hægt er að segja sem svo, átta sig á því hvernig eigi að uppfræða þau ungmenni sem munu þá fá kosningarrétt, hvernig við ætlum að tryggja að þetta ágæta fólk, þetta frábæra fólk sem mun erfa landið og taka við af mörgum okkar sem erum í þessum sal og öðrum úti í samfélaginu og keyra áfram okkar góða samfélag, að upplýsingar, nálgun og annað sé með eðlilegum og hlutlausum hætti o.s.frv. Þetta þekkja þingmenn allir saman.

Það sem stingur mig aðeins er að mér hefur virst að helstu talsmenn málsins hafi hreinlega ekki áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut, þetta sé bara ekkert mál, það sé ekkert mál að færa kosningaaldurinn niður, úr 18 árum í 16 ár, það sé lítill munur þar á. Það er ekkert pælt í því, virðist vera, alla vega hefur þeim spurningum ekki verið svarað, t.d. þeim spurningum sem hv. þm. Brynjar Níelsson velti upp. Geta menn kært sig á kjörskrá? Það er væntanlega ekki hægt nema foreldrar geri það og samþykki það. Ef foreldri neitar, er þá verið að brjóta á kosningarrétti barnsins? Hvað þýðir það þá? Getur barnið kært foreldri sitt fyrir að brjóta á réttinum? Hvernig gengur það upp? Ég er ekki löglærður maður, en það eru alls konar svona hlutir sem fylgjendur málsins hafa ekki komið inn á.

Menn virðast ekki hafa áhyggjur af þessari framkvæmd, hvernig á að framkvæma kosningarnar, nema þeir sem eiga að sjá um þær, þeir hafa áhyggjur af því, bæði dómsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Það virðist enginn hafa áhyggjur af hvernig á að fræða, hvernig á að mennta og hvernig á að upplýsa og standa að kynningu til þessa stóra hóps sem nú fengi kosningarréttinn. Og ágætt að hafa það í huga að ég held að hægt sé að byrja að kjósa eftir viku utan kjörfundar, og ekki einu sinni allir framboðslistar komnir fram um allt land. Menn virðast ekki hafa neinar áhyggjur af þessu.

Menn virðast ekki hafa neinar áhyggjur af því hvernig á að leysa úr vandamálum. Er það skrifað í kosningalögin í dag, er það skrifað inn í lög um framkvæmd kosninga hvernig á að leysa úr því til dæmis þegar ólögráða barn telur á sér brotið. Hvernig er tekið á því varðandi kosningalögin?

Þeir virðast ekkert kippa sér upp við það ef kosningarnar myndu nú klúðrast með einhverjum hætti, ef í ljós kemur hreinlega að þetta gengur ekki, ef þessi tilraun — þetta er náttúrlega ekki tilraun eins og þetta er lagt upp — gengur ekki upp. Hvað þá? Á þá bara að fara til baka? Á þá að afnema kosningarréttinn hjá þessu frábæra fólki? Það er ekkert pælt í því ef þetta fer allt í vitleysu.

Það er ekki heldur búið að upplýsa um það eða velta því fyrir sér hvort menn hafi engar áhyggjur af samstöðuleysinu. Er það virkilega þannig að þetta sé svo lítið mál í huga þeirra sem keyra málið áfram að það skipti engu þó að naumur meiri hluti sé fyrir málinu, það rétt sleppi í gegnum Alþingi? Hvaða skilaboð eru það?

Boðað hefur verið til kosninga hér undanfarið með mjög skömmum fyrirvara. Ef kosið yrði eftir tvo mánuði, myndi nýr meiri hluti hugsanlega vilja breyta þessum lögum. Það þarf nefnilega að ná samstöðu um svona stórt mál, því að þetta er stórt mál. Jafnvel þótt hv. þingmenn reyni að gera lítið úr athugasemdum alþjóðastofnana og segja að það eigi ekki við í þessu tilviki, þá er það risamál að færa kosningaaldur niður um tvö ár, færa þá heimild, þetta vald eða hvað við köllum það, í hendur á ungmennum, börnum og unglingum, sem hafa ekki rétt til að ráða sér sjálf, sem eru undir áhrifum, undir fjárhag, rauninni valdi foreldra sinna. Þetta er svolítið stórt mál. Þetta er í rauninni bara risamál í mínum huga.

Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði hér í gær. Eins og öllum foreldrum þykir mér gríðarlega vænt um börnin mín og mitt fólk og mína frábæru drengi sem ekki hafa fengið kosningarrétt en mikill áhugi er á því að fá að kjósa. En ég vil að þegar að því kemur sé alveg klárt að engum spurningum sé ósvarað í sambandi við rétt þeirra eða hvernig þeir nálgast ákvörðun sína eða hvernig þeir fara inn í þetta ferli eða taka þetta skref í sínu lífi.

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem kom fram í ræðum í dag, m.a. hjá hv. þm. Bergþóri Ólasyni, að auðvitað er það mjög hjákátlegt að heyra sama fólk sem stóð hér og úthúðaði hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að hlusta ekki á ráðleggingar en neitar svo sjálft að hlusta á ráðleggingar frá sama fólki, frá sérfræðingum, segir bara að það skipti ekki máli í þessu tilviki, þetta sé svoddan smámál, það skipti engu máli þótt sérfræðingar dómsmálaráðuneytisins, sem eru að einhverju leyti þeir sömu og voru að ráðleggja hæstv. dómsmálaráðherra, leggi til að menn geri þetta ekki, eða segja að þetta geti orðið erfitt í framkvæmd o.s.frv. En það á bara samt að keyra á þetta. Þetta finnst mér tvískinnungur.

Það er líka svolítið sérstakt að hlusta ekki á þá sem eiga að framkvæma kosningarnar, þ.e. að hlusta ekki á athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga, svo því sé haldið til haga.

Við vitum alveg að alþjóðastofnanir hafa gert athugasemdir við framkvæmd kosninga á Íslandi. Það getur vel verið að mönnum finnist það allt í lagi, hugsanlega búa til eitt tilefnið enn. Ráðleggingar hafa komið um hvernig eigi að standa að mikilvægum og stórum breytingum. Við getum deilt um hvað er stór og lítil breyting. Ég tel þetta stóra breytingu og mikla. En í grunninn hef ég samt mestar áhyggjur af því að þrátt fyrir góð orð okkar ágæta menntamálaráðherra sem ég veit að er mikill eldhugi og getur framkallað margt, þá efast ég um, eins frábær ráðherra og hún er, að hún geti galdrað það fram að hægt sé að kenna, upplýsa og í rauninni kynna allt það sem fram undan er fyrir þeim frábæra hópi sem bíður þarna úti og getur mögulega fengið þennan kosningarrétt.

Það er einmitt það sem kemur fram í sumum af þessum álitum, m.a. frá umboðsmanni barna, að mjög mikilvægt sé að fram fari kynning og fræðsla þannig að börnin eða ungmennin þekki og viti hvað er í vændum, hvað blasir við þeim og hvað þau eru að fara að gera. Það kemur vissulega fram að embættið og ráðgjafarhópurinn hefur verið fylgjandi því að lækka kosningaaldurinn. Allt í lagi með það. Það er bara alveg sjálfsagt, en það kemur líka fram að vanda þurfi til verka, svara þurfi ákveðnum spurningum og hafa þurfi alveg á hreinu hvernig hlutirnir eigi að vera. Það er ekki verið að gera það með þessu máli. Það er ekki verið að fara að þeim ráðleggingum umboðsmanns barna. Það ætla ég að leyfa mér að segja hér og fullyrða.

Ýmis sveitarfélög hafa sent inn umsagnir og gert athugasemdir. Ég nefndi Samband íslenskra sveitarfélaga áðan. Ég nefni Grýtubakkahrepp þar sem segir að kosningarréttur og kjörgengi eigi að fylgja sjálfræðisaldri. Það er hér bréf frá Hveragerðisbæ þar sem þeir hafa áhyggjur af svipuðum hlutum, að umræddur hópur sé ekki fjárráða og heyri undir lög um barnavernd og forræði foreldra og svoleiðis. Allt réttmætar áhyggjur og athugasemdir.

Það kemur líka ágætisathugasemd frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema þar sem þeir lýsa sig hlynnta því að kosningaaldur verði lækkaður, en leggja gríðarlega mikla áherslu á að kennsla, kynning og slíkt eigi sér drjúgan aðdraganda og gangi vel fyrir sig. Listaðar eru upp ákveðnar aðgerðir sem þeir telja að þurfi að fara í.

Það er alveg sama hvort fólk er fylgjandi málinu eða telur að bíða eigi með það, allir eru að tala um það sama í rauninni, ekki allir, fyrirgefið, flestir, að vanda þurfi til verka, að kynna þurfi þetta almennilega og fræða. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu, sýnist mér, í það minnsta hef ég ekki orðið var við það og ekki heldur endilega í málflutningi þeirra sem hér helst vilja fara fram.

Síðan er eitt sem mér finnst athyglisvert. Nú er hér stór hópur þingmanna sem ætlar að treysta þessu ágæta fólki til að öðlast kosningarrétt og kjósa. Allt fínt með það. Eflaust er ungt fólk í dag tilbúið til að gera slíkt ef það er uppfrætt og fær til þess tíma og hlutleysi. En ég veit ekki betur en einhverjir af þessum sömu þingmönnum treysti ekki sveitarfélögunum til að ákveða hvort það eigi að vera sex, sjö, fimm eða tíu í sveitarstjórn. Það er náttúrlega alveg dæmalaust. Það er náttúrlega stórfurðulegt að treysta ekki sveitarfélögunum til að ákveða það sjálf.

Þannig að mótsagnirnar og margt annað í þessu máli er mjög undarlegt. Ég held að það sé fyrst og fremst vegna þess að hraðinn á því er svo mikill. Það er verið að keyra þetta áfram til að reyna að ná þessu núna í hús. Þá skiptir engu máli hvort vandað er til verka, hverjar afleiðingar kunna að verða, hvort spurningum sé ósvarað. Menn skulu ná þessu. Það getur vel verið að það gangi og þá vinnum við bara úr því að sjálfsögðu.

Mig langar að spyrja spurningar, kannski sjálfan mig og þingheim líka: Getum við tryggt það að 16 ára unglingur eða barn fái frið til þess að móta skoðanir sínar og hugsanir heima hjá sér, með vinnufélögum, í skólanum, einhvers staðar, er það tryggt? Er hægt að tryggja það? Ég er ekki viss um að hægt sé að tryggja það, en í það minnsta er hægt að fræða þann ágæta einstakling um það hver réttindi hans eru, hvernig hann geti sorterað úr, hvernig hann geti myndað sér sína eigin skoðun o.s.frv. Það er það minnsta sem hægt er að gera. En ætlum við að gera það á einni viku núna áður en kjörstaðir opna fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu til dæmis? Munum við ná því á þeirri viku? Ég veit það ekki, ég er ekki viss. Ég myndi ekki treysta mér í það, held ég.

Virðulegi forseti. Ég held að mikilvægt sé að menn reyni að setjast niður og ná einhvers konar samstöðu um það hvernig hægt er að klára þetta annars ágæta mál þannig að hægt sé að una við það, það sé ekki einhvern veginn kreist í gegnum þingið korteri fyrir kosningar, eins og stundum er sagt um þingmál sem fara tæplega í gegnum þessa samkomu hér. Ég held að mjög mikilvægt sé að menn velti fyrir sér hvort ekki sé betra að gera það heldur en að böðlast svona áfram með þetta.

Ég hef farið í gegnum marga af þeim punktum og þeim spurningum sem ég ætlaði að velta hér upp. Og mögulega fá menn svör við einhverjum af þeim spurningum, ég skal ekki segja. Það er ekki sjálfgefið að svör birtist í þessum ræðustól og í þessum sal við spurningum, en við reynum.

Ég mun í atkvæðagreiðslu um málið flytja breytingartillögu þar sem lagt er til að gildistímanum verði frestað og það er sú miðlunartillaga, sem orða má svo, sem við í Miðflokknum ákváðum að leggja til. Við sjáum svo hvernig þetta fer allt saman.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.