148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svara hv. þingmanni: Nei, því miður, þetta er ekki nokkurs staðar inni á topp 10 listanum. Það er annað í þessu sem er líka sorglegt til að vita. Við erum að tala um unglinga, og ef fatlaðir, hreyfihamlaðir unglingar eru í hjólastól, hafa ekki bifreið til umráða og ætla sér í leikhús lenda þau í ákveðnum vandræðum. Það er nýlegt dæmi um að bíll hafi komið að ná í þau klukkan níu en leikhúsið var ekki búið fyrr en hálftíu. Þau voru bara send út, fengu ekki að sjá endinn, út með ykkur, þið eigið bara að gjöra svo vel og mæta út í bíl og heim. Er þetta ekki ofbeldi? En við erum að tala um að þessir einstaklingar megi kjósa í sveitarstjórnarkosningum. Er það ekki svolítið öfugsnúið? Eigum við ekki að segja: Hey, þið megið hafa full réttindi, svo megið þið kjósa.

En einhvern veginn finnst mér við á þingi stundum snúa öllu á hvolf. Við byrjum á öfugum enda. Ég vona að við höfum núna kjark og þor til þess hreinlega að sjá til þess að allir geti búið við reisn hérna, börn og unglingar líka, að þau fái að vera börn og unglingar. Þegar við erum búin að koma hlutunum í lag skulum við sjá til þess að þau hafi kjörgengi og allt og geti kosið á þeim tíma sem hentar þeim en ekki okkur vegna þess að við eigum að hugsa um hvað hentar unglingunum okkar en ekki hvað hentar pólitíkinni eða flokkunum. Ég hef það á tilfinningunni að þetta frumvarp sé bara til þess að þjóna ákveðnum flokkum, ekki börnunum okkar.