148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv þingmanni fyrir heiðarleikann. Það er gott að þessi afstaða hv. þingmanns liggur fyrir. Ég tek undir það að auðvitað á þingmeirihluti að ráða í þessu máli. Það sem mér finnst mjög skemmtilegt við þetta mál er að það er algjörlega þverpólitískt og skoðanir fólks ganga engan veginn eftir flokkum. Hér eru bara misjöfn sjónarmið uppi. Mér finnst það hressandi og skemmtilegt og full ástæða til að það fái að koma fram öðru hvoru, ekkert að því.

Að sjálfsögðu, þegar málið er hér fullrætt, gengur það til atkvæða og þá er það bara þannig að meiri hlutinn ræður, þannig virkar lýðræðið. En með því er ekki hægt að segja að taka eigi rétt af þeim hv. þingmanni sem stendur hér, að ég hafi ekki rétt til að segja mína skoðun á málinu. Ég held að það sé einfaldlega hin þinglega meðferð sem við búum við. Það er réttur okkar sem þingmanna og í raun skylda okkar að útskýra afstöðu okkar, sérstaklega í svona stórum og miklum málum.