148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvað skal segja. Áhyggjur mínar lúta einmitt að því að of stuttur tími sé til stefnu og að framkvæmdarvaldið, í þessu tilfelli sveitarfélögin og mögulega skólarnir og aðrir, þyrfti meiri tíma og það þurfi kannski meiri samfélagslega umræðu um þetta mál. Þar liggja áhyggjur mínar. Ég er sjálf ekki löglærð eða útlærð í kosningafræðum en velti fyrir mér hvort einhver mál kunni að koma upp þegar við afgreiðum svona mikilvæg grundvallarlög kortéri fyrir kosningar, 60 dögum fyrir kosningar. Ég velti því fyrir mér hvort upp kunni að koma vandkvæði, sem við sjáum ekki fyrir, hvort enn sé spurningum ósvarað. Það hlýtur að vera tilgangurinn með málsmeðferðinni hér á þingi að öll sjónarmið fái að heyrast og allar mögulegar vangaveltur og spurningar komi upp svo að hægt sé að svara þeim, svo að við getum verið handviss um að við séum með góð lög í höndunum.