148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að svara þessu síðasta. Það er ekkert sem heitir „bara“ sveitarstjórnarkosningar. Sveitarstjórnarkosningar eru gríðarlega mikilvægar kosningar því að sveitarstjórnarstigið er alveg virkilega mikilvægt stig. Ég held meira að segja að við í þingsölum mættum oftar taka sveitarstjórnir og sveitarfélögin okkur til fyrirmyndar og hugsa meira um hag þeirra þegar við fjöllum um mál hérna. Það er einmitt það sem ég var að benda á, við erum með ályktun frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og við erum með umsagnir frá mörgum sveitarfélögum sem sum hver segja: Ókei, þetta er allt í lagi hugmynd en það þarf að huga að þessu og hinu.

Flestar umsagnirnar eru þó á þá leið að þetta sé of knappur tími núna og það er í mínum huga lykilatriðið sem ég tel að við þurfum að vinna meira með. Það er mín skoðun. Þess vegna studdi ég í gær breytingartillögu um að lögin myndu taka gildi síðar vegna þess í grunninn er ég sammála hugmyndafræðinni sem liggur hér að baki, en ég tel að enn kunni að vera einhverjum spurningum ósvarað og framkvæmdaraðilinn þurfi meiri tíma til að framkvæma þessa breytingu.