148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:48]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast ekki við að þeim rökum hafi verið beitt í þessari umræðu af þeim sem andmælt hafa þessu frumvarpi, að 16 ára ungmennum væri ekki treystandi til að kjósa í sveitarstjórnarkosningum. Ég hef fylgst nokkuð grannt með umræðunni í dag. Þó kann það að hafa farið fram hjá mér að einhver hafi beitt þeim rökum, en ég hef ekki heyrt það hér í dag.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði að það væri henni svo sem ekki á móti skapi að mismunandi réttindi myndu skapast á mismunandi aldursbili fyrir ungmenni. En er það samt sem áður ekki rétt að þetta tvennt hljóti að fylgjast að, þ.e. kosningarrétturinn og kjörgengi? Hv. þingmaður nefndi að það væri spennandi að hlusta á viðhorf ungmenna sem fælist í því að þau hefðu kosningarrétt, en eigum við þá ekki að hlusta á þau viðhorf inni í sveitarstjórnum?