148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég hef ekki heyrt mikið af því í þessum sal í dag að fólk segi að það treysti ekki 16 ára börnum til að taka þátt í kosningum til sveitarstjórna. Ég upplifi það þannig að umræðan hér sé frekar um það, en eins og hv. þingmaður nefnir hér, að ýmis önnur réttindi ættu að fylgja það með og að huga þurfi að ýmsum fleiri þáttum, eða þá að fólk sem rætt hefur þessi mál í dag sé á svipaðri skoðun og ég, þ.e. að það þurfi aðeins lengri tíma. Aftur á móti skal ég viðurkenna að á fésbókinni er ég búin að lesa ansi mikið af færslum þar sem fólk efast hreinlega um að 16 ára börn hafi þroska til að kjósa. Ég deili ekki þeim sjónarmiðum.

Hv. þm. Páll Magnússon spyr mig hvort ég telji það rétt að kjörgengi og kosningarréttur fari saman, ef ég skil spurninguna rétt. Ég hef sagt að ég sé ekki sannfærð um að það þurfi að vera svo. Mér þykir ekkert óeðlilegt við að réttindi komi í einhverjum skrefum og þetta þurfi ekki endilega að fara saman. Leið sveitarfélaga til að hlusta eftir (Forseti hringir.) sjónarmiðum ungmenna kann að vera t.d. í gegnum ungmennaráð. Svo eru aðrar fleiri lýðræðislegar leiðir sem sveitarfélög geta beitt til að hlusta eftir sjónarmiðum ungs fólks.