148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni kærlega fyrir ræðu hans áðan. Ég sá bókun Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir algjöra tilviljun, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason. Ekki var sérstaklega reynt að vekja athygli okkar þingmanna á henni, að mér virðist.

Mig langar að spyrja hv. þm. Óla Björn Kárason um hvort hann þekki einhver dæmi þess að jafn afgerandi og jafn alvarlegar athugasemdir hafi komið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem er fulltrúi þess aðila sem sér um framkvæmd kosninganna sem um ræðir. Þekkir hv. þingmaður einhver dæmi þess að meiri hluti Alþingis, alla vega stór hluti þingmanna, hafi verið tilbúinn til að líta fram hjá jafn skýrum athugasemdum þar sem fulltrúi framkvæmdaraðilans hafði jafn miklar áhyggjur af því sem við tæki og í þessu máli?

Ég verð að viðurkenna að ég sé varla fyrir mér að sú staða komi upp að þegar samtök eins og Samband íslenskra sveitarfélaga koma fram með jafn afgerandi athugasemdir og lýsa áhyggjum, þ.e. fulltrúi þeirra 72 eða 74 sveitarfélaga sem sjá um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga núna í lok maí, sé þeim öllum sópað undir teppið. Ég hef áhyggjur af því hvað varðar almennt verklag hér inni.