148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:52]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef minnið svíkur mig ekki þá hygg ég að ég hafi tekið alveg sérstaklega fram að ég teldi eðlilegt að kjörgengi í embætti forseta Íslands yrði 16 ár þegar ég mælti fyrir nefndaráliti 3. minni hluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem lagst var gegn því að við fetuðum okkur inn á þessa braut. Við lögðum til að við myndum hefja endurskoðun á kosningalögum og gera ein samræmd lög um allar kosningar hér á Íslandi og að m.a. væri tekið tillit til þess að lækka kosningaaldur og kjörgengi. Ég skil satt að segja ekki af hverju við höfum ekki breytt þessari reglu a.m.k. niður í 18, vegna þess að ég sé engin rök fyrir því að kjörgengi til embættis (Forseti hringir.) forseta Íslands skuli vera 35 ár. Ég hygg að það séu bara einhverjar sögulegar skýringar sem við höfum gleymt að uppfæra.