148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

vegtollar.

[15:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Eins og við vitum verður fjármálaáætlunin rædd síðar í vikunni. Það er eitt og annað sem kemur fram í henni, margt ágætt og annað sem ekki er eins gott. Við heyrðum mikla umræðu um samgöngumálin um síðustu helgi. Það liggur ljóst fyrir að samkvæmt fjármálaáætlun verður fjárfesting í vegakerfinu ekki eins og væntingar stóðu til. Þegar við skoðum aukningu á umferð á næstu fimm árum og síðan framlegð til vegamála er ljóst að bilið þar á milli mun bara aukast þannig að hlutfallsleg framlegð til vegamála með tilliti til umferðaraukningar mun minnka.

Það er hinn kaldi veruleiki. Mig langar til að rifja upp það sem hæstv. forsætisráðherra sagði fyrir síðustu kosningar á landsfundi hjá flokki sínum. Þar sagði hún að gripið væri til gervilausna, eins og hún orðaði það, í heilbrigðis- og samgöngumálum. Hún sagði að einstaklingar sem ræddu einkaframkvæmd og gjaldtöku væru eingöngu að því vegna þess að þeir treystu sér ekki til þess að byggja upp innviðina eins og vera bæri.

Nú hlýt ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra, í ljósi orða hæstv. samgönguráðherra um að horfa verði til annarra leiða, til gjaldtöku, til þess að hraða vegaframkvæmdum: Hefur það verið rætt innan ríkisstjórnarinnar? Mun forsætisráðherra styðja samgönguráðherra í því að skoða gjaldtöku og þær leiðir sem eru til þess fallnar að hraða samgönguframkvæmdum? Munu það verða gervilausnir í huga forsætisráðherra eða er hún reiðubúin að styðja samgönguráðherra í því að leita allra leiða, þar með talið gjaldtöku til þess að flýta vegaframkvæmdum?