148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

staðan í ljósmæðradeilunni.

[15:11]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. 13 ljósmæður hafa sagt upp störfum við Landspítala og enn fleiri liggja undir feldi og hugsa sinn gang. Ástæðan er óánægja með launakjör og fleiri þætti, bæði varðandi aðstöðu og vinnuálag og óuppgerð mál frá verkfallsaðgerðum árið 2015. Ljósmæður ætla ekki að fara í verkfall heldur velja sér önnur störf og það er vond staða. Þetta eru alvarleg tíðindi, nú þegar sumarið er fram undan þegar saman fer að hvað flest börn á Íslandi fæðast, ekki færri en þúsund, sumarleyfi eru í algleymingi og erfitt að tryggja mönnun þótt almennt árferði væri. Slíkt ástand veldur skiljanlega ugg og óöryggi meðal verðandi mæðra og fjölskyldna þeirra. Ekki er við því að búast að það viðmót sem ljósmæðrum er sýnt hvetji til nýliðunar.

Samkvæmt mönnunarspám sem ekki eru óraunhæfar mun allt að helmingur stéttarinnar fara á eftirlaun á næstu tíu árum. Hver og einn einasti vinnukraftur þeirrar stéttar er því afar dýrmætur.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún telji starfs- og kjaraumhverfi ljósmæðra ásættanlegt og eðlilegt með tilliti til sex ára háskólamenntunar og mikillar sérhæfingar og hvort brugðist verði við af hálfu stjórnvalda, hvernig það verði gert og hvort eitthvert viðbúnaðarplan sé til staðar ef ekki semst.