148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

staðan í ljósmæðradeilunni.

[15:15]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð og ágæt svör. Til að öðlast menntun ljósmóður þarf viðkomandi að ljúka fjögurra ára háskólamenntun í hjúkrunarfræði. Æskilegt er að viðkomandi hafi síðan nokkurra ára starfsreynslu í fagi sínu áður en tekist er á við tveggja ára nám í ljósmóðurfræðum. Þetta er fullt nám og um nokkurra ára skeið hefur það verið ólaunað með öllu. Ef horft er til miðgildis launa hjúkrunarfræðinga í starfi má gera ráð fyrir að með því að fara í þetta viðbótarnám verði hjúkrunarfræðingar af að minnsta kosti 12 millj. kr. launum á námstímanum og beri lítið eða ekkert úr býtum fjárhagslega.

Það er bara ein háskólastétt sem uppfyllir jafn miklar menntunarkröfur og ljósmæður til að geta starfað við fag sitt, sex ára háskólanám. Samt eru ljósmæður í sjöunda neðsta sæti meðal 24 BHM-félaga í launasetningu. Er þess að vænta, hæstv. ráðherra, að námsfyrirkomulag og viðmót sem þetta laði að ungt fólk? Er ekki ástæða til að bregðast skjótt við og færa þetta í betra horf og hvernig vill hæstv. ráðherra helst standa að því?