148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

úrræði fyrir börn með fíkniefnavanda.

[15:23]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ráðuneytið er að vinna mjög þétt með þeim aðilum sem málið varðar. Að undanförnu hafa staðið yfir starfsmannaviðtöl og fleira við að koma þessu úrræði af stað. Áframhaldandi kortlagning og vinna verður að sjálfsögðu í samráði við þessa aðila. Það liggur algjörlega ljóst fyrir af hálfu félagsmálaráðherra og kom líka fram í ríkisstjórn á föstudaginn þegar málið var rætt að það er algjört forgangsmál hvort sem um er að ræða foreldra, samtök foreldra eða aðra sem að því koma, einnig lögregluna og þann ágæta lögreglumann, Guðmund Fylkisson, sem sér um að leita að þessum börnum þegar þau týnast, að þau hafa aðgengi að ráðherra hvenær sem er sólarhringsins. Við erum að vinna í þessum málum. Það verður tryggt að næg úrræði verði fyrir þessi börn þegar á þarf að halda. Það getur ekki gerst aftur og má ekki gerast aftur, það sem gerðist hér um liðna helgi, að börn séu vistuð í fangaklefum vegna úrræðaleysis. (Forseti hringir.) Þess vegna erum við að gera allt sem við getum til að þetta nýja úrræði geti tekið gildi. Það verður í seinasta lagi innan tveggja vikna. Það hef ég sagt.