148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

skerðingar lífeyristekna hjá TR.

[15:35]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég tek undir með hv. þingmanni sem sagði í upphafsorðum sínum að í flestum tilfellum bæri að fagna svona fréttum en fór síðan ágætlega yfir að þarna væri hugsanlega verið að búa til einhvers konar gildru sem hann rakti svo í sínu máli hvernig væri uppbyggð.

Ég vil segja hér að á leiðinni er mál, ef það er ekki komið til þingsins er það á leiðinni, til að gera breytingar á þessu og koma í veg fyrir þá glufu sem þarna myndast og hv. þingmaður kom inn á. Ríkisstjórnin hefur það skýrt á sinni stefnuskrá að koma til móts við þá hópa sem lægstar hafa tekjurnar. Þetta er einfaldlega breyting sem þarf að gera á þeim þætti sem hv. þingmaður kom inn á.

Varðandi krónu á móti krónu sem hv. þingmaður kom aðeins inn á líka, ég leyfi mér að taka það hér samhliða, hefur komið fram að ríkisstjórnin er að setja í gang vinnu, sem er búin að vera í gangi en er að fara formlega af stað og beðið er eftir lokatilnefningum í starfshóp til að koma að þeirri vinnu, sem miðar að því að gera breytingar á almannatryggingakerfinu þegar kemur að örorkulífeyrisþegum. Þar er samhliða miðað að því að afnema krónu á móti krónu skerðingarnar. Það er mikilvægt að sú vinna geti hafist sem fyrst þannig að við getum vonandi á sem skemmstum tíma gert breytingar sem lúta að því að afnema krónu á móti krónu skerðingar og bæta kjör örorkulífeyrisþega. Það er hluti af þeirri vinnu sem er fram undan og ég hef sagt frá hér og forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa einnig sagt frá opinberlega.