148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:11]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir að vekja máls á þessu og þakka ráðherra fyrir ágætisinnlegg. Það er greinilegt að farin er af stað vinna í hennar ráðuneyti til að reyna að fá a.m.k. einhverja mynd á þetta mál sem ég held að sé afar mikilvægt.

Smálán, skyndipeningar eða hvað við köllum þetta er önnur leið til að fá aðgang að peningum sem við erum ekki búin að afla en viljum geta notað strax. Það má eiginlega segja að það sé pælingin og þetta er ein tegund yfirdráttar eða veltukorta eða eitthvað þess háttar — nema að þarna er neytandinn ekki í föstu viðskiptasambandi við bankann og lánafyrirtækið hefur þannig ekki beinan aðgang að upplýsingum á sama hátt og t.d. sá banki sem við flest kannski eða mörg eigum í viðskiptum við, bankinn hefur aðgang að öllum upplýsingum, a.m.k. fjármálaupplýsingum um okkur stórt séð.

Vextir af yfirdráttarlánum hjá bönkunum eru núna til að mynda einhvers staðar á bilinu 10,5–12%, eftir því hvaða viðskiptavild menn hafa, og þannig gætu vextir hjá smálalánafyrirtækjunum, a.m.k. eins og það er birt á netinu, virst „ósköp sanngjarnir“, þ.e. þeir eru 12–12,5% eftir því sem þau segja. Þegar maður fer síðan að reikna út eða skoða nánar er árleg hlutfallstala kostnaðar oft í kringum 50%, oft miklu hærri, og þannig í klárlegri andstöðu við 26. gr. laga um neytendalán þar sem kveðið er á um að hámarksvaxtaprósenta sé 50%, þ.e. í árlegri hlutfallstölu. Ég held að það sé algjörlega einboðið að ráðherra og hennar ráðuneyti verði að gera greinargóða úttekt á þessum fyrirtækjum, gjarnan og alveg absalútt að hafa þau leyfisskyld (Forseti hringir.) og finna út úr því hverjir eru að nota svokallaða þjónustu þessara fyrirtækja því að þetta er ekkert annað en okurlánastarfsemi eins og þetta virðist vera rekið í dag.