148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:30]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessa umræðu. Það er ýmislegt sem hér hefur komið fram sem ég tek með mér til baka eftir hana, eins og t.d. það að þegar málið var í þinginu árið 2013 ákvað þingið að smálánafyrirtæki ættu ekki að vera leyfisskyld. Nú heyrist mér, a.m.k. á þeim sem eru hér að taka þátt, að það sé væntanlega þingvilji til að þessi fyrirtæki séu leyfisskyld þannig að þar á er breyting þar.

Ég vildi nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi það að við gleymum því ekki að í mörgum tilvikum eru smálánafyrirtæki, án þess þó að við höfum skilgreint hugtakið smálán, rekin að öllu leyti innan þess ramma sem lög og reglur heimila og eru notuð sem ákveðinn valkostur utan hefðbundinna lánaleiða. Inn í þetta koma auðvitað breytingar á fjármálastarfsemi, ég nefni svokölluð fjártæknifyrirtæki og annað, það eru auðvitað að verða breytingar sem eiga ekkert í rauninni skylt við það sem við erum að ræða hér en þess vegna er líka mikilvægt að skilgreina hugtakið smálán, hvers konar fyrirtæki þetta eru og hvers konar fyrirtæki fjártæknifyrirtæki eru vegna þess að þau eru líka oft ný fyrirtæki sem munu þróast enn frekar?

Ég vildi sömuleiðis koma aðeins inn á spurninguna um leyfisskylduna. Umræðan hefur snúist um annaðhvort að setja slíka leyfisskyldu inn í lög um neytendalán eða að fella smálánafyrirtæki undir hugtakið fjármálafyrirtæki og þar með undir lög um fjármálafyrirtæki en eftirlitsaðili með smálánafyrirtækjum væri þá Fjármálaeftirlitið, eins og hér hefur komið fram, í stað Neytendastofu. Þetta var skoðað þegar lögin voru sett og þá var viljinn ekki til þess að gera þetta. Það hefur líklega breyst.

Mig langar líka að taka undir með hv. þm. Þorsteini Víglundssyni um mikilvægi þess að horfa á samspil þeirra breytinga sem við höfum farið í síðastliðin ár og þróunar á þessari starfsemi og kem þá aftur að því að við horfum á það hvernig við náum helst markmiðum okkar.

Til að svara hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni nefndi ég það í fyrri ræðu (Forseti hringir.) að vinna væri hafin í ráðuneytinu um að greina þetta sérstaklega. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra innheimta þeir þetta eins og annað, en flest þau smálánafyrirtæki sem Neytendastofa hefur beitt viðurlögum og hafa komið til innheimtu hjá tollstjóra eru undir gjaldþrotaskiptum. Það hefur væntanlega áhrif.