148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[16:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir að vera tilbúin að ræða hér um dreifingu ferðamanna um landið. Hugtakanotkunin í þessari umræðu þvælist dálítið fyrir mér. Að sjálfsögðu eru ferðamenn ekki duft sem hægt er að strá yfir landið eins og salti út á graut en þegar að er gáð geta stjórnvöld með aðgerðum eða aðgerðaleysi haft veruleg áhrif á ferðahegðun fólks og þar með dreifingu ferðamanna um land allt.

Íslensk ferðaþjónusta hefur á skömmum tíma vaxið hratt í að vera ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar og er nú sú atvinnugrein sem aflar mestra gjaldeyristekna. Útlit er fyrir áframhaldandi vöxt ferðaþjónustu á Íslandi og á heimsvísu. Við þær aðstæður skiptir verulegu máli að nýta sem stærstan hluta landsins sem aðdráttarafl í ferðaþjónustu og að ferðamenn fari sem víðast. Það getur breikkað markhóp ferðaþjónustunnar, það getur dreift álagi á landið, skapað atvinnutækifæri víðar en nú er, aukið fjárfestingu og tryggt framboð á fjölbreyttari þjónustu um allt land allt árið. Um þetta tel ég að ríki nokkur sátt. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a. að aukin dreifing ferðamanna um landið sé mikilvæg með hliðsjón af náttúruvernd og byggðasjónarmiðum.

Eitt af því sem stjórnvöld hafa lagt áherslu á í þessum tilgangi er betri nýting alþjóðaflugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum, en það hefur sýnt sig að ef árangur á að nást í þeim efnum þarf að yfirstíga ýmsar hindranir og margir, bæði opinberir og einkaaðilar, þurfa að vinna í takt eigi vinna hvers og eins að skila árangri. Ein hindrunin er hærra verð á eldsneyti á millilandaflugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík. Flutningsjöfnun á eldsneyti hefur ekki náð til flugvélaeldsneytis. Þetta skekkir samkeppnisstöðu vallanna og vinnur gegn því að flugfélögin komi á fót reglubundnu flugi til annarra staða á Íslandi en Keflavíkur.

Ég hef ítrekað rætt þessi mál hér og m.a. lagt fram frumvarp um flutningsjöfnun á árinu 2016 án þess að árangur næðist. Nú liggur hins vegar fyrir tillaga á Alþingi að stefnumótandi byggðaáætlun 2018–2024 frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Eitt af markmiðunum þar er jöfnun á aðstöðumun á millilandaflugvöllum. Lagt er til að skipaður verði starfshópur til að vinna tillögu um verðjöfnun á flugvélaeldsneyti á millilandaflugvöllum landsins. Stefnt verði að því að hópurinn skili tillögum fyrir árslok 2018. Ég hvet þingmenn til að fylgja þessu markmiði fast eftir við afgreiðslu á áætluninni og bind vonir við að niðurstaða náist hratt og vel.

Ekki er hægt að ræða dreifingu ferðamanna án þess að minnast á markaðs- og kynningarmál. Það er ljóst að gífurlegir fjármunir fara í þennan málaflokk í hagkerfinu, bæði af hálfu ferðaþjónustufyrirtækja og stjórnvalda. Ekki er samt hægt að merkja sérstaka áherslu á kynningu á þeim svæðum þar sem ekki hefur náðst að byggja upp heilsársferðaþjónustu eins og á Norðurlandi, Vestfjörðum og Austurlandi. Virðist kynning þessara landshluta fyrst og fremst hvíla á markaðsstofum landshlutanna án þess að þeim sé sérstaklega ætlað opinbert fjármagn til þess né að til staðar sé nægilega góð tenging við Íslandsstofu sem sinnir markaðsstarfi erlendis.

Flugþróunarsjóður var settur á stofn á árinu 2016 sem hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Skilgreindur tilgangur var að stuðla að dreifingu ferðamanna um landið í samræmi við Vegvísi í ferðaþjónustu, bæta nýtingu innviða ríkisins, bæta búsetuskilyrði og lífsgæði heimamanna og bæta rekstrarskilyrði atvinnureksturs á Norður- og Austurlandi. Ekki liggur fyrir ákvörðun um starfrækslu sjóðsins lengur en þrjú ár, 2017–2019. Það er mjög stuttur tími til að fá alvörureynslu á sjóðinn.

Virðulegi forseti. Eins og áður sagði þurfa margir þræðir að fléttast saman til að árangur náist við að byggja upp ferðaþjónustu um land allt og dreifa ferðamönnum. Því vil ég við upphaf þessarar umræðu spyrja hæstv. ráðherra:

Telur hæstv. ráðherra að flugþróunarsjóður skili árangri í samræmi við stofnmarkmið?

Telur ráðherra að skoða þurfi fleiri þætti samhliða starfi sjóðsins til að stuðla að dreifingu ferðamanna um landið?

Hvernig er hlutverk opinberrar markaðssetningar skilgreint varðandi dreifingu ferðamanna (Forseti hringir.) sem víðast um land?