148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna.

305. mál
[17:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég viðurkenni að ég sé ekki alveg fyrir mér landverði með handtökuheimild, en hugsanlega er hægt að samtvinna þau störf með einhverjum hætti. Það er hins vegar miklu meiri þörf á að við tökum almenna umræðu um ferðamennskuna, þar á meðal aðgangsstýringar sem eru algjörlega nauðsynlegar, og skoða hvernig við ætlum t.d. að koma í veg fyrir að viðkvæmir staðir á landinu verði troðnir enn frekar niður en orðið er.

Eitt olli mér nokkrum vonbrigðum í svari hæstv. ráðherra, þ.e. að hún ætlaði sér ekki eða hefði ekki hug á því að löggilda leiðsögumannsstarfið. Það þykir mér óráð vegna þess að ég tel að það sé enginn vandi að koma fyrir einhverjum sólarlagsákvæðum þannig að þeir sem þegar starfa við leiðsögumennsku og hafa gert það mjög lengi og eru með víðtæka reynslu, geti gert það meðan þeirra aldur leyfir. En ég tel að það sé algjörlega nauðsynlegt að við lyftum leiðsögumannsstarfinu og gerum miklu ríkari kröfu til leiðsögumanna, sérstaklega þeirra sem fara með hópa ferðamanna (Forseti hringir.) um viðkvæm svæði.