148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

eftirfylgni við þingsályktun nr. 22/146.

267. mál
[18:13]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að fylgja þessu máli eftir hér. Það er alveg ljóst að skáldið Jónas Hallgrímsson á sterkar rætur í þjóðarsálinni og við þurfum að halda merki hans á lofti og við þurfum að koma upplýsingum og þekkingunni um hann áfram til komandi kynslóða, annars glatast það allt. Hluti af því er að efla og styrkja starfsemina sem er á Hrauni í Öxnadal og ég fagna því og hlakka í rauninni til að heyra tillögur sem ráðherra minntist á áðan og við fáum að vita meira um á næstunni.

Hugmyndafræði Jónasar og hugsjónir hans eiga vel við í dag og kjörorð hans og Fjölnismanna voru nytsemi, fegurð og sannleikur. Það er sannarlega eitthvað sem við getum tileinkað okkur í nútímanum og þess utan erum við að tala um ferðaþjónustuna, menningartengda ferðaþjónustu, sem svo sannarlega á vel við á þeim stað.