148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dagskrá fundarins.

[14:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er komin hingað til að ræða aðeins um dagskrárstjórn á þinginu. Kl. 19 í gærkvöldi, eftir að þingfundi lauk, fengum við upplýsingar um það hvaða 21 atriði yrði á dagskrá dagsins í dag. Á þeim tímapunkti var þingmönnum sem sagt gert að hefja undirbúning fyrir daginn enda sátu þingmenn nefndafundi í morgun, þurftu að vera undirbúnir fyrir þá fundi, sitja þá og hlýða á þá gesti sem þangað voru mættir til að upplýsa þingmenn um þau verkefni sem þeir þurfa að inna af hendi.

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé til marks um góð og vönduð vinnubrögð. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir að óvenjulegar aðstæður kalli á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum og að það sé vilji flokkanna sem nú taki þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, (Forseti hringir.) ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og (Forseti hringir.) auka áhrif þess.

Ég velti fyrir mér (Forseti hringir.) hvernig við þingmenn eigum að sinna okkar vinnu þegar svona er búið um hnútana.