148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:15]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og framlagningu á þessu frumvarpi. Mig langaði til að nota tækifærið til að ræða hér þá staðreynd að yngri einstaklingar dvelja inni á hjúkrunarrýmum og misræmi kann að koma upp í þjónustu því að þjónustuþarfirnar geta verið mjög misjafnar þegar um er að ræða yngri einstaklinga. Ég vildi vekja máls á því að þeir kunna annars vegar að kosta meira í umönnun eða þurfa öðruvísi þjónustu sem kostar meira, ef ráðherra hefði tök á að koma inn á það þótt það tengist kannski ekki beint þessu frumvarpi. Nú hafa sum hjúkrunarheimili fengið aukið fjármagn og þróað sérstaklega þjónustu fyrir yngri einstaklinga og geta boðið upp á sérhæfðari þjónustu eins og til að mynda Skógarbær í Breiðholti. Ég vil gjarnan fá sýn ráðherra á þá þætti.