148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að hvetja hæstv. forseta til þess að hvetja hæstv. ráðherra til þess að svara þeim spurningum sem til ráðherrans er beint. Ráðherra kemur hér upp í andsvar og gefur því undir fótinn að undirritaður eða sá er hér stendur skilji ekki um hvað málið snýst, að vera að blanda hjúkrunarrýmum inn í þetta.

Spurningin er einfaldlega sú: Ef maður ætlar að fjölga í þeim hópi sem sótt getur um einhverja þjónustu, þjónustan er aukin, lengist þá ekki biðlistinn? Væntanlega. Þá hljótum við að spyrja okkur: Er enginn metnaður hjá ríkisvaldinu, hjá heilbrigðisráðherra, til þess að setja aukna fjármuni í þá þjónustu til að biðlistinn lengist ekki? Svarið er nei, það er alveg ljóst. Svarið er nei. Ekki eiga að koma neinir fjármunir þangað. Það á eingöngu að stækka hópinn sem getur fengið þjónustuna, en það á ekki að reyna að fjölga þeim sem geta komist inn og fengið hana.