148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

skaðabótalög.

441. mál
[17:04]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skaðabótalögum. Um er að ræða breytingu á ákvæðum laganna er varða uppfærslu á margfeldisstuðlum í 6. gr. laganna, breytingu á vísitölutengingu fjárhæða sem leiða m.a. af sér breytingu á ákvæðum um lágmarks- og hámarkslaun og breytingu á frádráttarreglum vegna greiðslna frá lífeyrissjóði. Með breytingunum er leitast við að helstu viðmiðanir í lögunum verði uppfærðar með það að markmiði að tryggja fullar bætur fyrir líkamstjón.

Skaðabótalögin eru að stofni til frá árinu 1993. Árið 1999 voru gerðar viðamiklar breytingar á ákvæðum laganna og síðan þá hafa eingöngu minni háttar breytingar verið gerðar. Í nokkurn tíma hefur verið umræða um að brýn nauðsyn sé að endurskoða ákvæði laganna og uppfæra staðla og viðmið laganna þar sem langur tími er liðinn frá því að þau voru sett og forsendur þessara viðmiða eru vissulega breyttar. Þannig byggja margfeldisstuðlar í 6. gr. laganna á tilteknum forsendum sem hafa breyst frá því að stuðullinn var reiknaður út þegar breytingin var gerð á lögunum árið 1999. Lágmarks- og hámarkslaun sem mælt er fyrir um í 3. og 4. mgr. 7. gr. laganna hafa ekki hækkað í samræmi við launaþróun, þá hafa breytingar orðið á forsendum reglna um frádrátt vegna greiðslna frá lífeyrissjóði, samanber 2. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 5. gr. laganna, með aukinni hlutdeild vinnuveitenda í lágmarksiðgjaldi.

Eins og áður sagði er með þeim breytingum sem hér eru lagðar til brugðist við breyttum forsendum framangreindra viðmiða og þau löguð að þeim aðstæðum sem ríkja í dag með það að markmiði að tryggja fullar bætur fyrir líkamstjón. Skýrt hefur komið fram, m.a. við vinnu við þetta frumvarp, að ráðast þarf í frekari endurskoðun á lögunum. Þá hefur sérstaklega verið bent á að skoða þurfi hvernig staðið er að gerð örorkumats en sú framkvæmd þykir bæði óþarflega flókin og dýr og því er nauðsynlegt að ráðast fljótlega í endurskoðun á fleiri ákvæðum skaðabótalaganna að mínu mati og þá sérstaklega fyrirkomulagi við gerð örorkumats. Hins vegar þótti rétt að skipta þessu verki upp og taka fyrst til endurskoðunar þau atriði sem þetta frumvarp fjallar um. Það helgast af því að það er mjög brýnt að uppfæra þær viðmiðanir sem lagt er til að gert sé í þessu frumvarpi og almennt var samhljómur um að þessar uppfærslur væru óhjákvæmilegar og að ráðast þyrfti í þær án tafar. Það er miklu viðameira verk að endurskoða önnur ákvæði laganna, eins og um gerð örorkumats. Því þótti rétt að leggja strax fram þær breytingar sem hér eru lagðar til.

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað ítarlega um áhrif frumvarpsins, bæði á tjónþola og þá sem bótaskyldir eru og greiða bætur. Við vinnslu frumvarpsins var Vigfús Ásgeirsson tryggingasérfræðingur fenginn til að reikna út þau áhrif. Kostnaðargreining hans fylgir sem fylgiskjal með frumvarpinu. Það er ljóst að breytingin á margfeldisstuðlum laganna mun leiða af sér hækkun bóta og þar með hækkun á greiðslum frá vátryggingafélögum og öllum þeim öðrum sem greiða skaðabætur. Þá felur breytingin á fjárhæðum lágmarks- og hámarkslauna í sér að þessar fjárhæðir hækka og taka framvegis mið af launaþróun á vinnumarkaði.

Breytingarnar munu jafnframt leiða til hækkunar bótafjárhæða hjá ákveðnum hópi tjónþola og þar með til aukinna greiðslna af hálfu vátryggingafélaga og annarra bótaskyldra aðila.

Breytingar á frádráttarreglum vegna greiðslna frá lífeyrissjóði munu auka frádrátt frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku sem mun leiða til lækkunar bóta og þar með lækkunar á greiðslum frá vátryggingafélögum.

Áhrif einstakra breytinga frumvarpsins ganga að nokkru leyti hvor í sína áttina, þ.e. leiða ýmist til hækkunar eða lækkunar á bótum. Þó er ljóst að heildaráhrif frumvarpsins munu fela í sér hækkun á bótum og þannig hærri greiðslur af hálfu vátryggingafélaga og annarra sem greiða út bætur. Nánari grein er gerð fyrir þessu í frumvarpinu sem ég vísa einnig til að öðru leyti.

Virðulegur forseti. Ég hef þá gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps en það er ljóst að í því er ekki um að ræða heildarendurskoðun á ákvæðum skaðabótalaga. Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að endurskoða fleiri ákvæði laganna, sérstaklega það hvernig staðið er að gerð örorkumats. Þær breytingar sem hér eru lagðar til tel ég hins vegar afar brýnar.

Ég legg því til, virðulegur forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.