148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[17:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort það mundi gagnast hv. þingmanni að slá örlítið af yfirlætinu og hrokanum sem kom fram í andsvari hans um þetta mál. Það hefði kannski verið vænlegra til árangursríks samtals að óska eftir umræðum um eitthvert tiltekið atriði sem hv. þingmanni hugnast ekki en hv. þingmaður hefur greinilega ekki nokkuð við frumvarpið sem slíkt efnislega að athuga.

Almennt má þó segja í þessum efnum, því að hér er verið að fjalla um skipan dómara, og ég held að það sé ágætt að líta til þess að í þessu frumvarpi er einmitt gerð sú krafa við skipan fjórða einstaklingsins sem á að skipa þennan dómstól að sú staða sé auglýst en viðkomandi ekki handvalinn eða tilnefndur af einhverjum þáttum ríkisvaldsins, að öllum gefist kostur á að sækja um þá stöðu og ganga í gegnum einhvers konar hæfnismat, reyndar í þessu tilviki þá umfjöllun hæfnisnefndar sem kveðið er á um í lögum um dómstóla. Það er ágætt að hafa það í huga í stóra samhenginu þegar menn fjalla um skipan dómara.

Að öðru leyti vil ég kannski spyrja hv. þingmann að því líka hvort hann telji mögulega að almennir þingmenn megi eitthvað læra af því þingmannamáli sem varð hér að lögum árið 2013 og leiddi til stofnunar endurupptökunefndar sem Hæstiréttur og fleiri dómstólar hafa nú komist að niðurstöðu um að hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá.