148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Fjármálaráðherra lýsir ágætlega þessu sveiflukennda hagkerfi sem við búum í. Það er alveg rétt að einmitt á þessum tíma hagsveiflunnar streymir gjarnan fé inn í ríkissjóð. Við höfum alveg séð það á löngum uppgangstímum í hagkerfinu áður að einmitt útgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu hafa ekkert aukist þó að útgjöld í krónum talið hafi aukist mjög mikið. Ólíkt öðrum hagkerfum vöxum við gjarnan mjög hratt en drögumst líka mjög hraustlega saman með reglulegu millibili. Það er ekkert sem bendir nú til þess að þessi sveifla sé neitt að breytast.

Það er þess vegna sem ég velti því fyrir mér, þegar við horfum á þessi grunngildi laga um opinber fjármál, varðandi festu og sjálfbærni t.d., að það að auka ríkisútgjöld um 36% á fáum árum getur varla talist gott merki um festu í ríkisfjármálum. Það sem ég hef hins vegar meiri áhyggjur af er það að við sáum, í mýkstu lendingu sem við höfum farið í gegnum hingað til á árunum 2001–2003, að tekjur ríkissjóðs drógust verulega saman. Ef við speglum það á þetta hagvaxtartímabil sem hér er horft til mætti búast við að (Forseti hringir.) umtalsverður halli yrði af ríkissjóði á næstu fimm árum, ekki afgangur. Hvernig á ríkissjóður (Forseti hringir.) við þessar kringumstæður að geta staðið undir þeim þjónustuloforðum sem hér er verið að veita með sjálfbærni í huga án þess að þurfa að hækka skatta verulega þegar fram í sækir?