148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á þeirri mynd sem hv. þingmaður er að draga hér upp. Staðreyndin er sú að það er talað eins og við höfum aukið svo útgjöldin að við höfum ekki gáð að okkur og ekki búið í haginn fyrir erfiðari tíma í framtíðinni. Samt er það þannig að frá 2013 höfum við greitt upp 600 milljarða af skuldum. Í þessari áætlun erum við að gera ráð fyrir því að skuldir ríkisins fari niður, opinberu skuldirnar, nálægt 20% markinu. Skuldir ríkisins verða komnar í kringum 20% á áætlunartímabilinu. Ef við berum það saman við skuldaregluna þá skilur það eftir 300 milljarða svigrúm til að taka á sig halla eða auknar skuldir áður en það fer að klaga upp á skuldaregluna í framtíðinni. Þannig að það er svo sannarlega verið að búa í haginn fyrir framtíðina.

Ef það gerist sem hv. þingmaður segir að gæti gerst, og ég er alveg sammála honum, það gæti gerst að viðskiptakjör á erlendum mörkuðum myndu hrynja eða að eitthvað kæmi upp í ferðaþjónustu, eða aðrar útflutningsgreinar lentu í vandræðum, samkeppnishæfni myndi dala enn frekar (Forseti hringir.) o.s.frv., þá er bara ekkert að því að ríkissjóður verði rekinn í halla. Það er bara ekkert að því. Ef (Forseti hringir.) efnahagsforsendur breytast í grundvallaratriðum þá eigum við að taka þetta allt til endurskoðunar og skuldaregla ríkisfjármálanna gerir meira að segja ráð fyrir því að við getum rekið ríkið í halla í takmarkaðan tíma.