148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við höfum farið í gegnum þessa umræðu áður, gerðum það hér síðast í desember þegar við afgreiddum fjárlögin hvað varðar barnabætur og vaxtabætur. Hæstv. fjármálaráðherra fór ágætlega yfir þau svör, sem ég get að mörgu leyti tekið undir, hér áðan. Ég hef sagt það líka að ég hef viljað endurskoða þetta kerfi. Við höfum lagt áherslu á það Vinstri græn að við viljum nýta það til meiri jöfnunar en er í dag, svo að því sé bara svarað.

Miðað við þann jöfnuð sem hv. þingmaður talar fyrir með skattkerfi og öðru slíku hlýtur hann líka að vilja nálgast okkur í því samhengi nema hann sé þeirrar skoðunar að allir eigi að fá barnabætur alveg sama hvað. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég get alveg fallist á að þær eigi að koma þeim sem mest þurfa á að halda til góða.

Eins og hæstv. ráðherra fór yfir: Til þess að við höldum í við það sem við vorum með þá gerðum við þær ráðstafanir sem þurfti. Varðandi stofnframlögin: Við erum auðvitað að standa við gerða samninga. Við erum að gera það. Ég fór ágætlega yfir það hér áðan að við erum að standa við þá samninga sem gerðir voru árið 2015. Það þarf auðvitað að forgangsraða, það er alveg ljóst og við þekkjum það. Við berum niður þar sem við teljum að bera þurfi niður og standa við þennan samning. Það hefur ekki enn náðst að byggja það sem við vildum byggja þar sem við töldum að við ættum að vera búin að byggja nú þegar. Hvers vegna? Ég get ekki svarað því hvers vegna þeir sem sóttust eftir því að fá þessi stofnframlög hafa ekki sótt um þau.

Varðandi framhaldsskólann þá er það nú þannig að við erum að bæta við, það er 5,2% aukning á nemanda milli 2019 og 2020 til dæmis. Það er nú drjúgt í fjárhæðum. Þannig að ég er ekki sammála þeirri nálgun hv. þingmanns að við séum engu að bæta við. Við hækkum úr 1,76 í 1,89, í tæp 2. (Forseti hringir.) Þannig að ég bara fellst ekki á það, hv. þingmaður, að ekki sé verið að auka verulega hér í framhaldsskólann.