148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára frá og með árinu 2019 til og með 2023. Þetta er þriðja áætlun sem lögð er fram á grundvelli laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Það er ekki langt síðan fjármálastefna núverandi hæstv. ríkisstjórnar var samþykkt hér á Alþingi og felur þessi áætlun í sér nánari útfærslu á markmiðum þeirrar stefnu, mörkun og þróun tekna og gjalda og efnahags opinberra aðila, að hluta ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu.

Þannig felur áætlunin í sér sömu markmið um afkomu og skuldaþróun og fram kemur í nýsamþykktri fjármálastefnu. Lög um opinber fjármál kveða svo á um að áætlunin líkt og stefnan skuli uppfylla skilyrði laganna um tölulegar fjármálareglur um afkomu og skuldir samanber 7. gr. þeirra laga og þau fimm grunngildi sem sett eru fram í 6. gr. þeirra laga, þ.e. sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi.

Almennt með tilliti til hagstjórnar vil ég segja að mikilvægt skref er stigið með þessu fyrirkomulagi, ég vísa þá til laga um opinber fjármál og rammasetningu um opinber fjármál; að skoða með þessum hætti tekjur og útgjöld hins opinbera í heild og samræma við markmið í tekju- og útgjaldaþróun. Í því samhengi er afar mikilvægt að gott og náið samstarf sé á milli ríkis og sveitarfélaga til að tryggja efnahagslegan stöðugleika og sjálfbærni opinberra fjármála, þannig að hér ríki til langs tíma jafn og stöðugur hagvöxtur sem hlýtur ávallt að vera undirliggjandi markmið hagstjórnar. Til að svo megi verða er jafnframt mikilvægt að líta til þess að rekstur og fjárfestingarfyrirtæki í eigu hins opinbera séu í takti við þau markmið sem sett eru.

Ég ætla að fylgja eftir nokkrum þáttum sem gerð er grein fyrir, aðallega í greinargerð áætlunarinnar, sem er umfangsmikil eins og fram hefur komið í máli margra hv. þingmanna hér á undan mér. Mér finnst mikilvægt í þessari fyrstu lotu að rýna það umfram þá útfærslu sem felst í stefnumörkuninni. Án þess að fara mjög nákvæmlega í einstök málefnasvið eða málefnaflokka ætla ég að fara yfir þær áherslur sem birtast, svona meginlínurnar, og geyma slíka rýni til 2. umr. um málið eftir að nefndum hefur gefist kostur á að fjalla um málið og kalla eftir kynningu og frekari upplýsingum frá ráðherrum og ráðuneytum um það hvar ábyrgðin fyrir hverju sviði liggur.

Í 1. kafla greinargerðarinnar er fjallað um helstu stefnumið og áherslumál hæstv. ríkisstjórnar. Hér má segja að fylgt sé eftir því skrefi sem var stigið í fjárlögunum 2018 og kúrsinn frá nýsamþykktri stefnu útfærður og áætlaður til næstu ára. Ég get óhikað sagt hér að þær áherslur sem settar voru fram í stjórnarsáttmála speglast vel í þessari áætlun og í því ferli sem við höfum tekist á við síðan þá. Við höfum sannarlega upplifað hér langt samfellt hagvaxtarskeið sem lögð er áhersla á að samfélagið allt njóti góðs af. Á sama tíma er unnið að uppbyggingu innviða, að því að treysta félagslega þjónustu og þess gætt að það sé gert af ábyrgð og festu sem birtist í jákvæðri afkomu öll árin og þeirri staðreynd að hér er áfram verið að greiða niður skuldir og skuldamarki náð fyrr en vonir stóðu til fyrir örfáum missirum.

Efnahagslegur stöðugleiki þarfnast skilgreiningar en ef við lítum til þess að eftir kröftugan hagvöxt undanfarin ár ríkir jafnvægi á flestum sviðum og hagvísar eru jákvæðir, þó að samkvæmt spám dragi úr hagvexti í þessum samanburði, er hins vegar mikilvægt að viðhalda verðstöðugleika, fullri atvinnu og varðveita þann aukna kaupmáttt sem áunnist hefur. Við núverandi aðstæður er þetta vissulega jafnvægislist og mikil uppsöfnuð þörf í innviðafjárfestingum. Það krefst innspýtingar og aukinna útgjalda sem við sjáum stað í þessari áætlun og hér er verulega lagt til heilbrigðismála. Þar er raunaukning og við sáum þess stað þegar í fjárlögunum. Það er raunaukning til menntamála og úrbóta á sviði velferðarmála, enda lagði hæstv. ríkisstjórn upp með það og var kosin til þess.

Þeir kjarasamningar sem standa fyrir dyrum verða afar mikilvægir í þessu samhengi og hæstv. ríkisstjórn hefur frá byrjun lagt mikla áherslu á samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það er algjörlega nauðsynlegt að farsæl lausn náist samhliða þessari áætlun út þetta tímabil til þess að við náum að viðhalda hér stöðugleika og varðveita þann kaupmátt sem náðst hefur á undanförnum misserum. Þetta er sannarlega ein af þeim stóru áskorunum sem blasa við og það kemur glögglega í ljós í þessari áætlun og er bara sagt hreint út.

Hæstv. ríkisstjórn hefur frá því hún var mynduð og frá því að stjórnarsáttmálinn var birtur klárað fjárlög fyrir 2018, lagt fram ríkisfjármálastefnu sína sem Alþingi samþykkti 22. mars. Og hér erum við að fara í fyrri umr. um ríkisfjármálaáætlun sem hæstv. fjármála- og efnahagsmálaráðherra mælti fyrir fyrr í dag. Þetta er auðvitað ótrúlega margt, mikið umfang á jafn skömmum tíma, en hér sjáum við samt sem áður raungerast frekari fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar. Við sjáum þær fyrirætlanir raungerast sem komu fram í stjórnarsáttmála, voru rammaðar inn í fjármálastefnu, útfærsla markmiða stefnunnar um tekjur og gjöld og þróun til næstu ára. Það er auðvitað alltaf mikilvægt að rýna þetta í þessu samhengi; samhengi sáttmála, stefnu og áætlunar. Stefnumótunarferlið er í raun rammað inn í lög um opinber fjármál.

Hér er verið að auka útgjöld, það hefur komið fram. Það er verið að setja kraft í uppbyggingu innviða eins og lagt var upp með. Til að mynda er ágætt að skoða töflu á bls. 5 þar sem á verðlagi ársins 2018 sést mjög glögglega, fyrir utan þá aukningu sem varð milli 2018 og 2019, raunaukning til heilbrigðiskerfisins. Það er verið að setja verulegan kraft í heilbrigðisþjónustuna og auknir fjármunir settir í uppbyggingu þjóðarsjúkrahúss, eflingu geðheilbrigðisþjónustu, heilsugæslu og fjármunir settir til þess að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Það er raunaukning á öllum þeim fjórum málefnasviðum sem sjást í þessari töflu og eru að aukast verulega að raungildi. Misjafnt eftir málefnasviðum en allt á bilinu 10–15 eða 16%.

Samgöngu- og fjarskiptamálin hafa verið í deiglunni og þar er, eins og fram hefur komið, gífurlega uppsöfnuð þörf alls staðar á landinu. Hér þarf átak og hér er verið að setja inn mikla fjármuni en um leið er viðurkennt að betur má ef duga skal. Hér er lagt upp með að 16,5 milljörðum verði varið í aðkallandi verkefni á næstu þremur árum en það er fyllilega viðurkennt að mun meira þarf til ef við horfum á alla þá uppsöfnuðu fjárfestingarþörf.

Til að treysta félagslegan stöðugleika eru útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála aukin að raungildi um 14% á tímabilinu og á tímabilinu fara til mennta- og menningarmála um 500 milljarðar uppsafnaðir og þegar var að sjá aukningu á milli ára í síðustu fjárlögum.

Hér mætti auðvitað lengi telja og ég er eins og margir aðrir kolfallinn á tíma í jafn viðamiklu máli. En allt að einu með þessari áætlun er leitast við að tryggja hér áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika samhliða auknum fjárfestingum í samfélagslegum innviðum og aukinni þjónustu. Það er tryggt með því að skila jákvæðri afkomu öll árin og haldið áfram á þeirri braut að greiða niður skuldir. Það er sú stefna sem á liðnum misserum hefur skapað þessa sterku stöðu ríkissjóðs sem gerir okkur þetta kleift.