148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:10]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það getur mjög erfitt að rífa sig upp úr þeim hjólförum þegar menn eru búnir að grafa sig svona djúpt niður.

Það er annað mál sem ég vildi gjarnan taka upp við hv. þingmann vegna þess að í gær voru mótmæli fyrir utan velferðarráðuneytið varðandi afar mikilvægt úrræði í geðheilbrigðismálum, Hugarafl og geðheilsuteymi sem starfað hafa saman í Borgartúni og stuðlað að bata hjá fjölda fólks. Mér þykir mjög þungt að horfa upp á framkomuna við skjólstæðinga Hugarafls og geðheilsuteymisins. Aðstandendur þess fólks og forráðamenn sem hafa lagt mikið af mörkum og skilað frábærum árangri.

Ég leyfi mér þess vegna að spyrja hv. þingmann, sem er auðvitað mikill áhrifamaður í sínum flokki: Hvað getur hann sagt við þessa aðila um hvort af hálfu hans flokks verði lögð áhersla á að þessi starfsemi verði varin fyrir þeim skakkaföllum sem nú sýnast blasa við?