148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Að því leytinu til er það rétt að þessi áætlun er ekki núið. Eins og ég sagði áðan: Ef við ætlum að tala um núið þurfum við að tala um fjárlögin sem urðu að veruleika fyrir 2018. Og af því að hv. þingmaður ræðir skattbreytingar þá var eina skattbreytingin sem birtist þar hækkun á fjármagnstekjuskatti og hækkun á kolefnisgjaldi.

Síðan er hér boðað, í takt við þann stjórnarsáttmála sem þessi ríkisstjórn starfar samkvæmt, lækkun á tekjuskatti neðra þreps en um leið lofað samráði um hvernig sú lækkun eigi að líta út. Eðli máls samkvæmt er þessi áætlun áætlun því að hún gildir frá 2019. Hv. þingmaður vitnar hér í að kjarabætur til öryrkja séu ekki að koma strax, vissulega, ekki frekar en nokkuð annað í þessari áætlun, en hins vegar held ég að hv. þingmaður verði að horfa til þess að við gerum ráð fyrir þeim strax á árinu 2019 í þessari áætlun.

Sömuleiðis erum við ekki komin með útfærslu á því hvernig við getum ráðist í breytingar á skattkerfinu þannig að það nýtist sem best tekjulægri hópum. Ég kom að því í máli mínu áðan að það eru leiðir til þess. Ég benti á að hin efri og neðri mörk fylgja ólíkum vísitölum sem er ein breyta sem mætti alveg taka til skoðunar í því samráði sem er fram undan. Síðan nefndi ég það sem gert er að sérstöku umfjöllunarefni hér, hvernig megi nýta persónuafsláttinn til að koma betur til móts við tekjulægri hópa.

Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að þessi áætlun leysir ekki mál dagsins í dag. En hún birtir hins vegar ákveðna sýn fyrir næstu fimm ár þar sem ég tel að sé komið til móts við margt af því sem ég veit að hv. þingmaður og hans flokkur hefur verið að benda á, þ.e. hvernig við getum staðið betur að því að tryggja örugg lífskjör fyrir alla hópa samfélagsins. Þar þurfum við að horfa til innviðanna. Fjárfesting til að mynda í heilbrigðiskerfinu skiptir máli fyrir allt samfélagið. (Forseti hringir.) Lægri kostnaðarþátttaka fyrir sjúklinga skiptir máli ekki síst fyrir tekjulægri hópana og svo mætti lengi telja.