148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi tilvitnuð orð um fátækt og eymd. Mér finnst mikilvægt að gæta að því almennt þegar við tölum um opinbera þjónustu, ekki síst velferðar- og heilbrigðisþjónustu, og auðvitað menntakerfið líka, að aðgengi að þessari þjónustu er líka kjaramál. Það skiptir máli fyrir þá sem minnst hafa milli handanna að kostnaði við aðgengi að slíkri grunnþjónustu sé haldið í lágmarki. Mín skoðun er raunar sú að þjónusta af þessu tagi ætti að vera án gjaldtöku.

Þess vegna er það framlag mitt sem heilbrigðisráðherra til að draga úr fátækt — ég tel að skömm sé að því að við þurfum að horfast í augu við fátækt á Íslandi yfir höfuð — að draga með markvissum hætti úr kostnaðarþátttöku sjúklinga.

Hv. þingmaður spyr líka um stöðu heilsugæslunnar eftir rekstrarformi. Nú er það rétt, sem fram hefur komið, að tilteknar heilsugæslustöðvar sem eru reknar á einkaréttarlegum grunni hafa verið settar hér á stofn. Það er líka mikilvægt, miðað við það sem ég hef verið að skoða í ráðuneytinu, að tryggja betur jafnræði þessara stofnana, annars vegar þeirra sem eru reknar á opinberum grunni og hins vegar hinna, að því er varðar fjármögnun. Það skiptir mjög miklu máli að tryggja þar jafnstöðu. Þá með það að markmiði að þjónustan sé sem jöfnust fyrir þá sem hennar njóta. Það er auðvitað okkar skylda að fólk þurfi ekki að gjalda fyrir val sitt á heilsugæslustöð.

Hvað varðar staðsetningu Landspítala – háskólasjúkrahúss hlakka ég til að takast á við hv. þingmann hér í seinna svari um þau mál.