148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:46]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og fagna þeim. Ég gæti talað lengi áfram um skógrækt en langar að koma inn á fleiri þætti. Ég fagna áherslu á eflingu vöktunarkerfa vegna náttúruvár í áætluninni. Einnig kemur þar fram að ljúka á sex framkvæmdaverkefnum í ofanflóðavörnum á tímabilinu og er það vel. Þar af eru þrjú yfirstandandi verkefni. En ég vil þá spyrja hvort til sé tímasett áætlun um hvað taki við að þeim loknum og hvernig unnið sé að forgangsröðun slíkra verkefna og hvort ætlunin sé að hefja fleiri verkefni á þessu tímabili. Þetta er tvíþætt.

Ég fagna síðan aðgerðaáætlun til að draga úr plastnotkun og langar að fá meiri upplýsingar um hvar sú áætlun er stödd ef tími gefst til.

Loks langar mig að koma inn á mikilvægi þess að auka eigi landvörslu og sérstaklega áhersluna á heilsárslandvörslu. Hún skiptir ekki síst máli á strjálbýlum svæðum þar sem jafnvel fáir ferðamenn eiga leið um yfir veturinn. Jafnframt tel ég mikilvægt að gestastofur opinberra aðila á slíkum svæðum séu opnar allt árið. Einkaaðilar í ferðaþjónustu ráða ekki alltaf við að reka heilsársþjónustu þar sem umferð ferðamanna er enn að byggjast upp yfir veturinn, en engu að síður er mjög mikilvægt að ferðamenn geti fengið upplýsingar, ráðgjöf og leiðbeiningar um ferðir í misjöfnum veðrum ásamt því að fá upplýsingar um náttúruna.

Þá er mikilvægt að landvarsla verði þannig skipulögð að í raun sé ekkert landsvæði undanskilið eftirliti landvarða þó að áherslan verði eðli málsins samkvæmt mest á þjóðgarða og friðlýst svæði.