148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:30]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég biðst forláts á að hafa ekki svarað stóru gjaldtökuspurningunni, sem hefur verið borin upp síðastliðin ár, um brottfarargjöldin. Við segjum í stjórnarsáttmálanum að virðisaukaskattsáformin séu lögð til hliðar og aðrar leiðir skoðaðar, m.a. komu- eða brottfarargjald. Það er það sem við erum að vinna að núna. Við höfum tekið saman þau gögn sem eru til vegna þess að líkt og hv. þingmaður þekkir hefur þetta mál áður komið inn í þingið og töluverð vinna var unnin þá og samskipti við ESA og annað sem við erum einfaldlega að taka saman. Við erum síðan að láta vinna ákveðna greiningu á því hvaða afleiðingar slík gjaldtaka kynni að hafa og hefja samtal við greinina sjálfa hvað þetta varðar. Það er einfaldlega í skoðun og vinnslu.

Í fjármálaáætluninni er talað um gjaldtöku frá árinu 2020, en hins vegar er mikilvægt líka að fara yfir það hvar við erum með gjaldtöku í dag. Hvað þýðir aðgangs- og álagsstýring? Hvað gerum við þegar við erum með takmarkaða auðlind? Hvað kann það að þýða til framtíðar þegar við þurfum að stýra henni með betri hætti?

Hvað varðar iðnmenntunina og samstarf við menntamálaráðuneytið er þessi uppbygging sem betur fer að verða til víða um landsbyggðina. (Forseti hringir.) Það er skortur á iðnmenntuðu fólki. Ég tek undir orð hv. þingmanns, tek hann á orðinu og tek við áskorun um samstarf við menntamálaráðherra.