148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:34]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þori ekki að nefna hér tölu og þykjast vera með það 100% á hreinu hvað varðar niðurgreiðslurnar. En þær tölur sem ég hef heyrt eru miklu hærri en 30%, það er eitthvað sem ég þarf einfaldlega að fara betur yfir. En ég nefni þá aftur starfshópinn sem var falið það verkefni að fara yfir þetta og athuga hvort við gætum gert enn betur. Ég hef auðvitað heyrt frá garðyrkjubændum sem hafa viljað sjá það gerast.

Hvað varðar flutningskerfið er ég sammála hv. þingmanni að það kallar á að það eflist mjög. Það kostar sitt.

Hvað varðar þrífösunina þá er það líka rétt að ástæðan fyrir því að árið 2036 er uppi er sú að þetta eru miklar fjárfestingar og kosta verulega fjármuni. Þess vegna hefur hópurinn verið að skoða ákveðnar kerfisbreytingar eða sérstakar ákvarðanir. Ég segi bara: Ég hlakka til að fá niðurstöður þess hóps. Ég er sjálf með mjög opinn hug þrátt fyrir að ég átti mig á því að hluti af því gæti ratað inn í fjármálaráðuneytið, eignarhaldið á ákveðnum þáttum er þar. En ég er með mjög opinn hug gagnvart því að horfa á kerfið upp á nýtt til þess að ná fram þessum markmiðum. Ég held að þingheimur allur sé sammála um mikilvægi þess að okkur takist að hraða uppbyggingu í þrífösun rafmagns. Það er ekki hægt að tala um að við viljum sjá byggð um allt land og uppbyggingu alls staðar þegar innviðirnir eru með þeim hætti að fólki er gert of erfitt fyrir.

Þess vegna segi ég: Ég er til í að horfa á það mjög opnum huga hvernig við getum bætt innviði og gert þá þannig að við getum sagt: Hér er raunverulegt frelsi til búsetu.